Flugmaðurinn Andreas Lubitz var veikur en faldi veikindin fyrir vinnuveitendum sínum hjá Germanwings og Lufthansa. Þetta kom fram í yfirlýsingu saksóknara í Dusseldorf vegna rannsóknar á brotlendingu þotu frá Germanwings í frönsku ölpunum á þriðjudag.
Fyrr í dag var greint frá því að lögregla hefði leitað á tveimur heimilum Lubitz að vísbendingum um ástæðu þess að hann virðist hafa brotlent þotunni viljandi. Við húsleitina fannst veikindavottorð sem búið var að rífa, en samkvæmt vottorðinu var Lubitz ekki í ástandi til þess að vinna daginn sem hann brotlenti þotunni. „Skjöl fundust sem benda til viðvarandi veikinda og viðeigandi læknisaðstoð,“ stóð í yfirlýsingunni. Þetta þykir renna stoðum undir þá tilgátu að hann hafi verið veikur en falið veikindin fyrir vinnuveitendum sínum og vinnufélögum. Nú verða gögnin rannsökuð frekar og það mun taka nokkra daga, að því er fram kemur í tilkynningunni. Ekkert sjálfsvígsbréf hefur fundist og engin merki um að stjórnmála- eða trúarlegar ástæður hafi legið að baki.
„Þetta er hræðilegt, þetta verður sífellt óskiljanlegra,“ sagði Dr Hans-Werner Teichmüller, læknir og forseti sambands lækna sem gera læknisskoðanir á flugáhöfnum, í samtali við Guardian. Hann ræddi einnig um tillögur sem mikið er rætt um í Þýskalandi þessa dagana og ganga út á að flugmenn gangist undir mun ítarlegri sálfræðimöt. Hann sagði mjög líklegt að af þessu verði, en flugmaður sem vilji gera eitthvað af þessu tagi gæti verið nægilega fær til að láta líta út fyrir að allt sé í lagi, þrátt fyrir að vera með sjálfsmorðshugsanir. Aldrei sé hægt að koma algjörlega í veg fyrir svona lagað.
Þýska blaðið Bild segir að Lubitz hafi verið látinn taka hlé frá flugskóla Lufthansa í Arizona í Bandaríkjunum vegna þess að hann hafi ekki verið hæfur til að fljúga. Hann hafi í kjölfarið verið í meðferðum í eitt og hálft ár vegna þunglyndis, áður en hann snéri aftur í skólann og lauk þjálfun. Bild segir jafnframt að í kjölfar veikinda hafi hann verið merktur í kerfi flugyfirvalda á þann hátt að hann þyrfti að undirgangast læknisskoðanir reglulega.
Þá hefur Bild eftir heimildarmönnum innan lögreglunnar að verið sé að rannsaka hvort Lubitz hafi átt í einhvers konar persónulegum erfiðleikum, eins og erfiðleikum í sambandi við kærustu sína. Engum af þessum fréttum Bild hefur verið svarað opinberlega.