Andreas Lubtiz, flugmaðurinn sem talinn er hafa brotlent Germanwings-þotunni í frönsku ölpunum í síðustu viku, var í meðferð vegna sjálfsvígshugsana fyrir mörgum árum síðan. Þetta segja saksóknarar í Dusseldorf. Sky greinir frá.
Talsmaður saksóknara, Ralf Herrenbrueck, tók þó fram á blaðamannafundi í dag að þessi meðferð vegna sjálfsvígshugsana hafi ekki átt sér stað nýlega. Þá sagði hann að ekki sé komin fram nein skýring eða möguleg ástæða fyrir því að Lubitz hafi viljandi brotlent vélinni. Hann sagði einnig engar vísbendingar komnar fram sem bendi til þess að hann hafi sagt nokkuð um áætlanir sínar.