Eftir að greint var frá því hvernig flugslysið í frönsku ölpunum bar að, og eftir að greint var frá nafni flugmannsins sem virðist hafa brotlent vélinni viljandi, hafa fjölmiðlar safnað saman ýmsum upplýsingum um það hver hann var.
Maðurinn hét Andreas Lubitz og var 28 ára gamall. Hann var frá bænum Montabaur, sem er í vesturhluta Þýskalands, um 100 kílómetra norðvestur af Frankfurt. Hann bjó með foreldrum sínum í Montabaur en hafði íbúð til umráða í Dusseldorf, þar sem hann vann, að sögn bæjarstjóra Montabaur, Gabriele Wieland.
Þessi mynd var tekin af Facebook-síðu Lubitz, sem hefur síðan þá verið lokað. (Mynd: Facebook)
„Hann átti fullt af vinum, hann var ekki einfari,“ segir Peter Ruecker, góðkunningi Lubitz í samtali við Reuters. „Hann var venjulegur maður [...] Hann var mjög ánægður með starf sitt hjá Germanwings og honum gekk vel.“ Aðrir viðmælendur sögðu hann hafa verið rólyndan og þögulan, og að hann hafi ekki borið þess nein merki að vilja fremja sjálfsvíg. Hann er sagður hafa átt kærustu, hafa verið skemmtilegur og hlaupið langhlaup í frítíma sínum.
Lubitz hóf störf hjá Germanwings í september 2013 eftir að hafa verið í þjálfun hjá Lufthansa í Bremen. Hann hafði aðeins flogið 630 klukkustundir sem flugmaður. Forstjóri Lufthansa, Carsten Spohr, sagði að Lubitz hafi tekið sér langt og óvænt hlé á meðan á þjálfun hans hjá Lufthansa stóð, en að hann hefði sannað sem sem 100 prósent hæfan til að fljúga. Hann hóf flugmannsþjálfun árið 2008, en eftir að hann lauk námi vann hann sem flugþjónn um stund. „Það voru aldrei neinar efasemdir um hæfni hans eða hæfileika,“ sagði hann. Jafnframt kom fram í máli hans að allir flugmenn fari í sálfræðimat þegar þeir eru ráðnir inn hjá Lufthansa, en þeir þurfa aldrei að fara í slíkt mat aftur.
Svona lítur flugstjórnarklefi í Airbus A320 út. (Mynd:EPA)
Innanríkisráðherra Þýskalands, Thomas de Maiziere, segir ekkert benda til þess að Lubitz hafi verið tengdur hryðjuverkasamtökum miðað við þær upplýsingar sem tiltækar eru um hann. Líklegri skýring er að hann hafi framið sjálfsvíg. Þótt það sé afskaplega sjaldgæft að slíkt gerist með þessum hætti eru til dæmi um það.
Lögregla gætir nú heimilis fjölskyldu hans í Montabaur, en fjölskyldan fór á slysstaðinn eins og aðstandendur annarra sem létust. Þau voru hins vegar farin aftur til Þýskalands þegar greint var frá því í morgun hvernig í málinu lá.