Flugriti þýsku þotunnar sem hrapaði í frönsku ölpunum í gær er skemmdur og þarfnast viðgerða áður en hægt verður að hlusta á upptöku úr flugstjórnarklefa vélarinnar. Þetta sagði innanríkisráðherra Frakklands, Bernard Cazeneuve, við fjölmiðla í morgun. Hinn flugriti vélarinnar er enn ófundinn.
Cazeneuve sagði einnig að litlar líkur væru á því að um hryðjuverk hefði verið að ræða, þótt ekkert hefði enn verið útilokað. Saksóknaraembættið í Marseille fer með rannsókn á tildrögum slyssins, þar sem 150 létust, en yfirvöld í Frakklandi, á Spáni og í Þýskalandi munu koma að málum.
Einhverjir flugmenn hjá flugfélaginu Germanswings neituðu að fljúga í morgun vegna slyssins. Minnst einu flugi þurfti að aflýsa vegna þess en Germanwings gefur ekki upp fjölda þeirra flugmanna sem vildu ekki fljúga. Talsmaður stéttarfélags flugmanna sagði við AFP í morgun að það væri ekki vegna öryggismála sem flugmennirnir hefðu ekki mætt til vinnu, heldur hafi það verið af persónulegum ástæðum. Sex starfsmenn Germanwings létust í slysinu og margir hafi verið í of miklu áfalli til að ráðlegt væri að fljúga.
Leit er hafin á nýjan leik á svæðinu þar sem vélin fórst. Yfir 300 lögreglumenn og 380 slökkviliðsmenn munu leita að líkamsleifum og vísbendingum við erfiðar aðstæður. Það rigndi bæði og snjóaði á svæðinu í nótt sem gerir aðstæður enn erfiðari. Talið er að það geti tekið marga daga og jafnvel vikur að ljúka leit á svæðinu.
Ættingjar hinna látnu eru að tínast til þorpsins Seyne-les-Alpes, sem er miðstöð aðgerða, og þangað munu leiðtogar Frakklands, Þýskalands og Spánar einnig koma í dag og munu hitta ættingjana. Íbúar Seyne-les-Alpes munu hýsa einhverja þeirra sem komnir eru til þorpsins þar sem skortur er á gistirými. Þá eru um 30 sálfræðingar komnir í þorpið til að taka á móti ættingjunum.
Nýjustu upplýsingar herma að minnst þrír Bretar hafi verið um borð í vélinni. Í gær var komið í ljós að 67 Þjóðverjar hefðu verið um borð, þar á meðal sextán ungmenni á leið heim úr skólaferð. 45 Spánverjar voru um borð og spænskir fjölmiðlar höfðu nafngreint nokkra þeirra í morgun. Þá voru áströlsk mæðgin um borð og tveir Kólumbíumenn. Þrír voru frá Kasakstan, tveir frá Argentínu, þrír frá Mexíkó og einn frá Ísrael. Tveir voru Japanir, einn var Tyrki, einn Belgi og einn var Hollendingur.