Flugstjóri flugvélar TransAsia sem hrapaði í Keelung-fljót í gærmorgun er nú fagnað sem hetju á samfélagsmiðlum í Taívan og Kína. Liao Chien-tsung, flugstjóri, er sagður hafa með snarræði forðað stórslysi þegar flugvélin missti skyndilega vélarafl stuttu eftir flugtak frá Songsjan-flugvelli í Taípei. Frá þessu er meðal annars greint á vef Quartz.
Áætluð flugleið flugs GE235 frá Taípei til Kinmen-eyju undan ströndum Kína liggur yfir þétta byggð borgarinnar. Stuttu eftir flugtak kviknaði í hreyfli vélarinnar með þeim afleiðingum að hún tók að missa hæð. Liao náði að stýra vélinni hættulega nálægt þökum húsanna yfir Keelung-fljót sem hlykkjast í gegnum borgina. Litið hefur verið á flugleiðina sem vísbendingu um að Liao hafi reynt að forðast flugslys í íbúðabyggð.
Flugleið þotunnar er merk með rauðu frá því að hún tók á loft 10:53 að staðartíma í Taípei. Tveimur mínútum seinna hafði hún hrapað í Keelung-fljót. Appelsínugula línan sýnir áætlaða flugleið.
Svo fór að flugvélin hrapaði í ána eftir að hafa rekið annan vænginn í brú sem liggur yfir fljótið. Liao og flugmaður hans fórust báðir í slysinu. Á fimmtudagsmorgni höfðu 15 af farþegunum 58 fundist á lífi. Tólf eru enn týndir en 31 eru látnir. Tala þeirra sem hefðu farist hefði að öllum líkindum verið mun hærri ef vélin hefði hrapað í borgarþyrpingunni. Ökumaður og farþegi gula leigubílsins sem varð fyrir væng þotunnar sökuðu ekki.
„Snör viðbrögð flugmannanna björguðu mörgum mannslífum,“ sagði Chris Lin, bróðir eins farþeganna sem komust lífs af. „Ég var flugmaður sjálfur og hef nokkra þekkingu á því hversu snör handtökin þurfa að vera í svona aðstæðum.“
https://www.youtube.com/watch?v=eg1c_6fLETk
Íbúar í Taípei lofuðu flugstjórann á Facebook og öðrum samfélagsmiðlum í gær og sögðu meðal annars að „myndbandið sýni að flugvélin taki skyndilega krappa beygju yfir brúnni, þegar hann reyndi að forðast byggingar og íbúðablokkir. Flugmennirnir fá kærar þakkir fyrir að bjarga Nankang-hverfinu“.
Fluggreinendur segja enn of snemmt að segja með vissu að flugmennirnir hafi vísvitandi haldið þotunni á lofti yfir húsaþyrpingunni. Þeir benda þó á að áhöfnin hafi hugsanlega stefnt á fljótið til að lágmarka mannskaða.
Rannsókn á slysinu er hafin og flugriti vélarinnar hefur fundist svo hægt er að greina nákvæmlega hvað fór fram í stjórnklefa vélarinnar áður en hún fórst.
Aðstæður eru erfiðar á slystað. Fljótið er nokkuð straumþungt þar sem flak vélarinnar marar í hálfu kafi.