Mikill fjöldi flugfarþega á Vesturlöndum í dymbilvikunni, samhliða útbreiddum veikindum flugvallarstarfsmanna og erfiðleikum við að ráða í stöður, hafa skapað miklar tafir á flugvöllum í Evrópu, Ástralíu og Bandaríkjunum á síðustu dögum. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg.
Fleiri ferðamenn og færri starfsmenn
Samkvæmt fréttinni hefur flugfarþegum fjölgað töluvert á síðustu vikum á ýmsum flugvöllum, eftir því sem áhrif síðustu bylgju faraldursins eru að fjara út og nær dregur páskum.
Þeirra á meðal er flugvöllurinn í Sydney í Ástralíu, en framkvæmdastjóri hans, Geoff Culbert, sagði farþegafjöldann þar vera um 80 prósent af heildarfjölda farþega um völlinn á sambærilegum tíma fyrir heimsfaraldurinn. Hins vegar væru færri starfsmenn á hvern farþega, þar sem flugvöllurinn hafi einungis náð að manna 60 prósent af öllum lausum stöðum.
Svipuð staða er uppi á teningnum í Bandaríkjunum, en Tony Fernandes, stofnandi AirAsia Group, sagði í viðtali við Bloomberg að flugvellir þar væri „stútfullir“ af farþegum.
Sömuleiðis hefur farþegafjöldi um Heathrow-flugvöll sjöfaldast á síðustu tólf mánuðum, en samhliða því hafa seinkanir á flugferðum orðið mun tíðari. Flugvöllurinn hefur fengið landamæraverði að láni frá Skotlandi og Norður-Írlandi til að geta tekið á móti þessum aukna ferðamannafjölda og hyggst sömuleiðis ráða tólf þúsund nýja starfsmenn vegna þess.
Framkvæmdastjóri ástralska flugfélagsins Qantas segir útbreidd COVID-smit vera eina ástæðu fyrir því að erfitt sé að manna í stöður, en fjarvera starfsmanna þar nemi nú á milli 20 til 50 prósentum vegna þeirra.
Nánast fullbókuð stæði á Keflavíkurflugvelli
Fyrr í þessari viku sendi Isavia frá sér tilkynningu um að bílastæðin við flugvöllinn gætu fyllst nú um páskana. Voru farþegar hvattir til að bóka sér bílastæði í bókunarkerfi á vef Isavia til að tryggja sér stæði um páskana, eða nýta sér aðrar leiðir, líkt og rútur, strætóferðir eða bílastæðaþjónustu í nágrenni flugvallarins.
Þrátt fyrir mikla umferð hefur flugvöllurinn ekki lent í sömu mönnunarvandræðum og aðrir flugvellir erlendis, en samkvæmt Gretti Gautasyni, staðgengli upplýsingafulltrúa Isavia, hefur gengið vel að ráða í stöður samhliða fjölgun farþega.