Sá hópur sem talinn er hafa mestan aðgang að innherjaupplýsingum fyrirtækja hefur nú minnkað, auk þess sem tilkynningarskylda hans hefur fallið niður í kjölfar nýrrar lagasetningar sem tók gildi í byrjun mánaðarins.
Þrátt fyrir það segir Fjármálaeftirlit Seðlabankans (FME) að eftirlit með innherjum hafi ekki minnkað, heldur sé það í meira mæli í höndum útgefenda fjármálagerninga. Þetta kemur fram í svari FME við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Hugtakið innherji ekki lengur notað
Lögin sem um ræðir eru um aðgerðir gegn markaðssvikum, en þau voru samþykkt á alþingi í lok maí. Þau eru í samræmi við reglugerð sem Evrópusambandið kynnti árið 2016 og er kölluð MAR, en hún var innleidd til þess að innleiða sömu reglur gegn markaðssvikum hjá öllum aðildarríkjum sambandsins og aðlaga þær að tæknibreytingum og alþjóðlegri glæpastarfsemi í fjármálum.
Samkvæmt dreifibréfi Seðlabankans til þeirra sem gefa út fjármálagerninga breytist skilgreiningin á innherjum töluvert með nýju lögunum. Strangt til tekið er hugtakið innherji ekki lengur að finna í lagatextanum, einungis einstaklinga sem hafa aðgang að innherjaupplýsingum.
Tilkynningarskylda og birting innherjalista felld niður
Þeir sem höfðu mesta aðganginn að innherjaupplýsingum voru kallaðir fruminnherjar í gömlu lögunum. Fyrirtækjum bar skylda til að senda FME lista af öllum fruminnherjum þeirra, auk þeirra sem áttu tímabundinn aðgang að slíkum upplýsingum, en þeir voru kallaðir tímabundnir innherjar.
Einnig þurftu fruminnherjar að tilkynna sérstaklega ef þeir, eða aðrir tengdir þeim, vildu eiga í viðskiptum við fyrirtækið sem þeir gætu nálgast innherjaupplýsingar um.
Með nýju lögunum falla þessar tvær kvaðir á brott. Fyrirtæki þurfa ekki að senda FME lista af innherjum sínum, nema eftirlitið óski eftir því. Sömuleiðis þurfa fruminnherjar ekki að tilkynna um viðskipti sín.
Til viðbótar er sá hópur sem talinn er eiga mesta aðganginn að innherjaupplýsingum fyrirtækjanna orðinn minni en hann var í nýju lögunum. Samkvæmt fjármálaeftirliti Evrópusambandsins einungis að samanstanda af framkvæmdastjóra, fjármálastjóra, stjórnarformann og annarra hátt settra starfsmanna fyrirtækja, en svokallaðir fruminnherjar voru skilgreindir með víðari hætti í gömlu lögunum
Ekki minna eftirlit, en öðruvísi
Samkvæmt svari FME við fyrirspurn Kjarnans um áhrif lagabreytinganna segir stofnunin að eftirlit með innherjum hafi ekki minnkað með tilkomu MAR-reglugerðarinnar. Hins vegar hafi það nú breyst, t.d. með því að útgefendur fjármálagerninga þurfa að fylgjast enn betur með því hverjir hafi aðgang að innherjaupplýsingum þegar þær myndast og eiga þar af leiðandi að vera á atviksbundnum innherjalista.