„Ég held að við munum nota sömu nálgun á þetta og í fyrravetur,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir um hvort landsmenn verði hvattir til að ferðast innanhúss næstu vikurnar og þar með talið um páskana. „Við munum svo sannarlega hvetja fólk til að vera sem minnst á ferðinni. Við vitum hvað skapar smithættu, það eru ferðalög fólks.“ Þórólfur mun koma með leiðbeiningar um þetta á næstu dögum.
Þetta sagði hann á blaðamannafundi í Hörpu í dag þar sem hertar aðgerðir innanlands – enn og aftur – voru kynntar. Frá og með miðnætti fara samkomutakmarkanir úr 50 í 10. Hópsmit meðal barna hefur komið upp og er breska afbrigði veirunnar nú komið á kreik í samfélaginu.
Ýmis starfsemi og þjónusta, s.s. líkamsræktarstöðvar, sundstaðir, spilasalir og fleira verður lokað. Áhrifin á skólastarfið verða einnig mikil.
Þórólfur segist vona að aðgerðirnar sem gripið verður til núna muni skila árangri enda séu þær byggðar á þeirri reynslu sem við höfum aflað okkur. Í þriðju bylgjunni var reynt að setja staðbundnar aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu en það dugði ekki. Það var, að sögn Þórólfs ekki fyrr en þær væru settar á landsvísu að þær fóru að virka. „Og ég bind miklar vonir við að við náum því líka núna.“
Hann bendir á að þegar því sem næst búið er að útrýma veirunni innanlands og aflétta takmörkunum þurfi ekki mikið til að koma smitum af stað, komist þau yfir landamærin. „Það þarf ekki nema einn einstakling til að hleypa þessu af stað.“
Þórólfur segir að „grundvallaratriðið“ sé að reyna að anda djúpt og taka því rólega, vera ekki að hitta mjög marga. „Því það er það sem skapar smithættu.“
Aðgerðir í stuttu máli
Tíu manna fjöldatakmarkanir verða meginreglan, en 30 manns mega sækja athafnir á vegum trúfélaga.
Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar verða lokaðar. Sviðslistir þurfa að hætta starfsemi á ný. Íþróttastarf verður sömuleiðis óheimilt.
Barir og krár þurfa að loka á ný, en veitingastaðir mega vera opnir til kl. 22 á kvöldin, með takmörkunum. Margvísleg starfsemi verður þannig stöðvuð, en þó ekki starfsemi hárgreiðslustofa og snyrtistofa og önnur álíka þjónusta.
Öllum skólum í landinu, grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum, verður lokað fram að páskafríi.