Sorpa hefur ákveðið að „kveðja“ svarta ruslapokann og taka þess í stað á móti glæra pokanum á endurvinnslustöðvum fyrirtækisins. Svarta plastpokabannið tók gildi þann 1. júlí síðastliðinn en samkvæmt Sorpu er tilgangur bannsins að stuðla að meiri endurvinnslu og styðja við hringrásarhagkerfið.
Allur úrgangur og endurvinnsluefni þarf því að koma í glærum pokum á endurvinnslustöðvar. Það þýðir að engum úrgangi megi skila í ógagnsæjum pokum á endurvinnslustöðvar Sorpu.
Gunnar Dofri Ólafsson, sérfræðingur í samskiptum og samfélagsvirkni hjá Sorpu, segir í samtali við Kjarnann að um sé að ræða alla svarta poka sem koma inn á Sorpu, þar með talið poka undir flöskur og dósir. „Meginreglan er sú að allt eigi að vera í glærum pokum. Annað væri bara til að flækja hlutina fyrir starfsfólkið og viðskiptavinina.“
Mikilvægt að fyrirtæki fari á „þennan vagn“
Krónan greindi frá því í fyrradag að sölu á svörtum ruslapokum hefði verið hætt í versluninni en glærir ruslapokar kæmu þeirra í stað. „Tilgangurinn með breytingunni er að stuðla að aukinni endurvinnslu og að efla hringrásarhagkerfið en frá deginum í dag eiga viðskiptavinir Sorpu að koma með allan úrgang og endurvinnanlegt efni í glærum pokum á endurvinnslustöðvar. Glæru pokunum er ætlað að auðvelda starfsfólki endurvinnslustöðvanna að aðstoða viðskiptavini að skila endurvinnsluefnum í réttan farveg,“ segir í tilkynningu frá Krónunni.
Gunnar Dofri segir að glæru pokarnir verði ekkert vandamál þegar allir verða komnir á þennan vagn. „Það þarf auðvitað smá hugrekki til að hálfu fyrirtækis að taka þessa ákvörðun og fara út í þetta en þetta sýnir mikilvægi þess að atvinnulífið komi inn í þessi mál og ekki endilega með hlutum sem kosta neitt, heldur til að taka þátt.“
Fólk á væntanlega enn lager heima af svörtum ruslapokum, hvað á að gera við þá?
„Jú, að sjálfsögðu skellum við ekki á nefið á fólki á degi eitt. Þetta verður stigvaxandi en því lengur sem líður frá 1. júlí þeim mun minni þolinmæði munum við hafa fyrir svörtum pokum.“
Hefur Sorpa fyrirmyndir varðandi þessa glæru poka?
Gunnar Dofri segir að glærir pokar hafi verið notaðir í Danmörku til margra ára. „Maður heyrir í vinum og kunningjum í Danmörku sem hósta og spyrja: „Ha, eruð þið ennþá að nota svarta poka á endurvinnslustöðvum? Hvað eruð þið að pæla?“ Þannig að við erum þessum hefðbundnu 10 árum á eftir með allt.“
Glæru pokarnir ekki umhverfisvænni en þeir svörtu
Eru fleiri ástæður en sjáanleiki fyrir því að skipta yfir í glæra poka?
Hann segir að í sjálfu sér séu glæru pokarnir ekki umhverfisvænni en þeir svörtu. „Þeir koma út á sléttu með þetta. Við höfum fengið boð frá fyrirtækjum erlendis um að breyta plastinu okkur í gagnsæja poka. Þannig að glærir pokar geta verið úr tærri endurvinnsluafurð en tilgangurinn er fyrst og fremst að hjálpa okkar fólki að leiðbeina um hvað eigi að fara hvert.“
Bendir hann enn fremur á að glæru pokarnir nýtist flestum betur. „Til dæmis þegar maður fer að taka til í geymslunni þá er það mikið betra fyrir mann að vera með hlutina í glærum pokum svo maður sjái hvað er í þeim og þurfi ekki að opna þá. Þannig að þegar fólk kemur á stöðvarnar þá veit það hvað er í pokunum og þarf ekki að rífa þá upp.“
Þá er eins gott að fólk sé ekki með „leyndó“ í glæru pokunum?
„Já, það þarf þá að finna einhverjar aðrar leiðir til að henda leyndarmálunum sínum,“ segir hann kíminn.
Ódýrara fyrir samfélagið að urða minna
Gunnar Dofri segir að fyrstu dagarnir hafi gengið ágætlega. Fólk taki þessum breytingum vel.
„Það er í sjálfu sér engin ástæða til að hafa poka ekki gagnsæja. Við sjáum það allavega ekki. Við erum líka ekki að gera þetta að gamni okkar, við förum ekki út í þetta bara vegna þess að við viljum það heldur er grundvallarástæðan fyrir því að við viljum fá allt í glæru svo helmingurinn af því sem er hent í urðunargáminn geti farið á betri stað – í endurvinnslu eða jafnvel endurnot hjá Góða hirðinum. Þannig að þetta er fyrst og fremst hugsað sem aðgerð í þágu umhverfisins og hringráðsarhagkerfisins.
Svo er þetta ódýrara fyrir samfélagið því Sorpa og endurvinnslustöðvarnar eru reknar fyrir útsvar íbúa á höfuðborgarsvæðinu og þeir þurfa að greiða fyrir það sem verður um úrganginn. Þannig að því minna sem þarf að fara í urðun, og síðan brennslu þegar við hættum að urða, því ódýrara.“
Hann segir að í fullkomnum framtíðarheimi myndu Íslendingar ekki urða eitt gramm en því miður sé þó ólíklegt að af því verði. „En það er stefnan. Við viljum ekki urða,“ segir hann að lokum.