Meira en 50 manns eru látnir eftir tvær gríðarlega stórar sprengingar í iðnaðarhverfi í borginni Tianjin í Kína í gær. Meðal þeirra látnu eru 12 slökkiliðsmenn. Að minnsta kosti 700 eru slasaðir þar af 71 alvarlega, að sögn borgaryfirvalda í Tianjin. Slökkviliðið í Tianjin sakna enn 18 slökkviliðsmanna.
Sprengingarnar voru svo stórar að þær sáust á gervitunglamyndum og þær sendu höggbylgju um alla borgina svo rúður brotnuðu í húsum í margra kílómetra radíus. Myndbönd af sprengingunum sem gengu um netheima í nótt sýna risastóra eldhnetti við sprengingarnar. Þær voru jafnframt nógu öflugar til að mælast á jarðskjálftamælum, að sögn jarðvísindastofunar Bandaríkjanna.
Fjölmargir eru slasaðir eftir sprengingarnar og eldana í Tianjin. Margir urðu fyrir glerbrotum úr rúðum sem splundruðust við högg sprenginganna. (Mynd: EPA)
Tianjin er fjórða stærsta borg Kína en þar er stærsta manngerða höfn í Kína, fimmta stærsta í heimi sé miðað við umfang þess sem þar fer í gegn. Sprengingin varð á geymslusvæði hafnarinnar og flugu flutningagámar um eins og eldspítustokkar, nýir bílar á leið til væntanlegra kaupenda brunnu og geymslurými brunnu til kaldra kola. Meðal þess sem hefur orðið eldinum og sprengingunum að bráð eru sprengiefni, ýmiskonar eiturefni og annað hættulegt heilsu fólks.
„Ég hélt fyrst að þetta hefði verið jarðskjálfti,“ sagði Guan Xiang, sem býr sjö kílómetrum frá sprengingunum í Tianjin. Hann sagðist svo hafa séð sveppaský stíga til himins fyrir ofan eldtungurnar og spurt sig hvort kjarnorkusprengja hafi sprungið. Stærð fyrstu sprengingarinnar var á við þrjú tonn af TNT en sú seinni mun stærri eða á við 21 tonn af TNT.
Gríðarlegt magn nýrra bíla sem biðu flutnings um allan heim brunnu til kaldra kola á hafnarbakkanum í Tianjin eftir sprengingarnar. (Mynd: EPA)
Orsök sprenginganna er talin vera eldur sem varð í nokkrum flutningagámum, að sögn fréttastofunnar Xinhua. Hins vegar er ekki hægt að fullyrða um orsökina. Í kjölfar sprenginganna hafa eldar læst sig í mannvirki og vörur á mun stærra svæði. Vegna þess hversu hratt vörur fara í gegnum svæðið er erfitt að áætla hvar mesta hættan er. Þá er einnig hættulegt að nálgast eldana vegna sprengihættu. Slökkviliðsmenn berjast enn við elda á fjórum stöðum við höfnina í Tianjin.
Slys í tengslum við aukna framleiðslu og vöruflutninga Kínverja hafa orðið æ oftar undanfarin ár, í takt við gríðarlega hraðan vöxt kíversks efnahagslífs.
Gríðarleg eyðilegging
https://www.youtube.com/watch?v=XZa48XG7NNM