Gríðarlega fjölmennt lið lögreglu- og hermanna hefur nú umkringt prentsmiðju í smábænum Dammartin-en-Goele, þar sem Kouachi bræðurnir, sem grunaðir eru um fjöldamorðin á og við skrifstofu skopmyndablaðsins Charlie Hebdo, hafast við og hafa tekið einn einstakling í gíslingu. Bærinn, þar sem umsátrið ríkir, er í um nítján kílómetra fjarlægð frá alþjóðaflugvellinum Charles De Gaulle, sem liggur 23 kílómetra norðaustur af París.
Fréttir herma nú að farsímasamband náist ekki lengur í bænum Dammartin-en-Goele. Fólki hefur verið sagt að halda kyrru fyrir þar sem það er en að slökkva ljós og halda sig frá gluggum.
Á blaðamannafundi í franska innanríkisráðuneytinu í morgun viðurkenndi Francois Hollande Frakklandsforseti að yfirvöld hefðu vitað að hætta væri á hryðjuverkaárásum. Dæmi væru um áform um hryðjuverk sem hefði verið komið í veg fyrir.
Einn þeirra sem lifði af árásina á Charlie Hebdo talaði við fjölmiðla í París í morgun. Hann segist hafa falið sig undir skrifborði og jafnframt segist hann hafa heyrt hryðjuverkamennina ræða saman eftir að hafa myrt tíu manns. Þeir hafi sagst telja að þeir hafi “náð öllum” og að talað um að þeir myrtu ekki konur.
Greint hefur verið frá því að lögregla sé nú að ræða við hryðjuverkamennina tvo um að sleppa gíslinum sem þeir eru með. Talið er að gíslinn í prentsmiðjunni sé kona og því eru nú taldar vonir á því að hægt verði að semja um að henni verði sleppt. Yves Albarello, þingmaður UMP, hefur þó sagt í frönskum fjölmiðlum að mennirnir tveir hafi lýst því yfir að þeir vilji deyja sem píslarvottar.
Nýjustu upplýsingar frá Charles de Gaulle flugvelli eru þær að allar flugbrautir séu opnar. Hins vegar hefur flugtökum og lendingum verið hagað þannig að ekki sé flogið yfir umsáturssvæðið.
Hélt dætrum sínum heima til öryggis
Bræðranna hefur verið ákaft leitað eftir að hryðjuverkin í París. Sigrún Halla Árnadóttir Tarafa, sem starfar sem flugfreyja hjá Air France, býr í smábænum Crépy-en-Valois. Talið er að Kouachi bræðurnir hafi haldið til í skógi við bæinn, sem er í um þrjátíu kílómetra fjarlægð frá Dammartin-en-Goele.
Sigrún Halla Árnadóttir Tarafa.
„Ég fór í vinnuna klukkan fimm í gærmorgun, og hafði þá ekki hugmynd um að bræðurnir væru í nágrenninu. Dóttir mín lét mig síðar vita að hún hefði séð lögreglumenn í herklæðum á leiðinni í skólann í skólabílnum. Þá fór um mig hrollur,“ segir Sigrún Halla í samtali við Kjarnann.
„Þegar ég heyrði svo að þeir héldu sig í skóginum hér í kring, ákvað ég að halda dætrum mínum heima í dag til öryggis. Ég finn ekki fyrir hræðslu hjá þeim samt, en eldri dóttir mín var alls ekki sátt við að komast ekki í skólann í morgun. Hún sagði að girðingin í kringum skólann sé það sterk og það sé ekkert að óttast. Svo læsi kennarinn líka alltaf útidyrahurðinni!“
Samkvæmt nýjustu fréttum verður börnum í skólum í nágrenni Dammartin haldið innandyra í dag, og hefur foreldrum þeirra verið gert viðvart. Sigrún Halla segir Frakka í áfalli eftir hryðjuverkin í París, og þau hafi haft víðtæk áhrif og þá líka á börnin. „Þau fylgjast með þessu og tala um þetta í skólunum. Í gær þögðu þau í eina mínútu eins og alls staðar í Frakklandi, en hér ríkir mikil sorg og fólk er bara ekki alveg að ná þessu. Í vinnunni límdum við „Je suis CHARLIE“ á einn skápinn í flugvélinni þar sem farþegarnir tóku vel eftir, og sumir þeirra lýstu yfir hrifningu með uppátækið.“