Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hefur beðið foreldra barna á leikskólanum Grandaborg að stinga upp á húsnæði sem hentar fyrir alla starfsemi leikskólans.
Grandaborg í vesturbæ Reykjavíkur er einn 24 leik- og grunnskóla borgarinnar þar sem greinst hefur mygla og einn fimm skóla sem þurft hefur að flytja starfsemi sína annað.
Leikskólanum var lokað í byrjun október en grunur um „slæma innivist“, eins og það er orðað í pósti til foreldra og forráðamanna, kom fyrst upp sumarið 2021. Þá var ráðist í endurnýjun á húsnæði skólans. Þegar starfsfólk sneri aftur eftir sumarfrí í ágúst síðastliðnum fann hluti þeirra fyrir einkennum sem rekja má til myglu- og rakaskemmda. Eftir úttekt heilbrigðiseftirlits borgarinnar og verkfræðistofunnar Eflu kom í ljós að auk rakaskemmda fór skólplögn í sundur undir nýrra húsi leikskólans og mengun greindist í jarðvegi.
Grandaborg, auk Hagaskóla, hefur þurft að skipta starfsemi sinni í þrennt. Yngsta deild leikskólans er með starfsemi í Ævintýraborg við Nauthólsveg og elsta deildin var flutt í Ævintýraborg á Eggertsgötu. Þá eru tvær deildir leikskólans með aðsetur á neðstu hæð í gamla Morgunblaðshúsinu í Kringlunni þar sem leikskólinn Sunnuás hefur einnig starfað tímabundið.
„Allar ábendingar eru vel þegnar!“
Á upplýsingafundi með foreldrum í byrjun október kom fram að ekki liggur fyrir hversu langan tíma framkvæmdir við Grandaborg munu taka. Áætlað var að boða til annars upplýsingafundar um miðjan mánuðinn en svo hefur ekki verið gert.
Hvorki skólastjórnendur né foreldrar hafa fengið fundarboð frá borginni en í pósti sem Ólafur Brynjar Bjarkason, skrifstofustjóri leikskólahluta fagskrifstofu skóla- og frístundasviðs, sendi foreldrum og forráðamönnum á þriðjudag er óskað eftir tillögum frá foreldrum um húsnæði sem gæti hentað fyrir alla starfsemi leikskólans.
Í póstinum segir að ýmsir möguleikar varðandi húsnæði hafi verið skoðaðir, til að mynda JL-húsið, húsnæði á Fiskislóð og húsakostur KR en ekkert af þeim hafi komið til greina. Í póstinum segir að borginni sé þröngur stakkur sniðinn þegar kemur að húsnæði sem uppfyllir kröfur um leikskólastarf. Foreldrar eru því endilega beðnir um að láta vita ef þau hafa hugmyndir um húsnæði sem mögulega væri hægt að nota. „Allar ábendingar eru vel þegnar!“ segir í póstinum.
Áætlað er að funda með foreldrum og forráðamönnum á ný þegar frekari upplýsingar um húsakost eða framkvæmdaáætlun liggja fyrir.