Börn verða móttækileg fyrir fræðslu um fjármál heimilisins þegar þau ná fimm til sex ára aldri. Eftir því sem þau eldast, allt fram á unglingsárin, má auka fræðsluna og veita ítarlegri upplýsingar um fjármál heimilisins. Slík fræðsla, þar sem foreldrar upplýsa börnin sín um hvað hlutirnir kosta og hvað það kostar að reka heimili með tilheyrandi útgjöldum, getur verið afar verðmæt lexía síðar á lífsleiðinni. Þetta segir Ron Lieber, pistlahöfundur New York Times, í grein sem ber yfirskriftina: Afhverju þú ættir að segja börnunum þínum hvað þú ert með í laun.
Í greininni ræðir Lieber við nokkurn fjölda fólks um þeirra persónulega upplifun og hvernig þau nálgast heimilisfjármálin í samtölum við börnin sín. Hann telur best að fræðsla um heimilisbókhaldið byrji snemma. Vissulega eigi börn ekki rétt á, né hafi skilning til, að vita allt en byrja megi snemma að útskýra fyrir þeim kostnaðinn við ýmislegt og byggja á þeirri fræðslu. Eftir því sem þau eldast eykst skilningurinn og vitneskja þeirra um fjárhag heimilisins á að haldast í hendur við það, að mati Lieber.
Þessar kenningar Lieber ríma ágætlega við þættina Ferð til fjár á RÚV. Áhorfendur þáttanna hafa fylgst með Mána Mar, þrettán ára Hafnfirðingi sem tók yfir heimilisbókhald heimilisins. Máni Mar er fjármálastjóri fjölskyldunnar og þannig með yfirsýn yfir öll útgjöld heimilisins, greiðir reikninga og sér til þess að útgjöldin við matarinnkaup og allt annað séu í takt við áætlanir. Enn á eftir að koma í ljós hvernig honum gengur að halda um útgjöldin en til þessa hefur hann staðið sig með prýði og á tímum verið harður fjármálastjóri foreldra sinna.
Sturtaði peningaseðlum á borðið
Börnum þykir peningar oft hulinn ráðgáta, segir Lieber. „Þau skynja mátt peninga og spyrja þess vegna spurninga, margra spurninga yfir fjölda ára. Afhverju er húsið okkar minna en Jóns frænda? Afhverju má ég ekki byggja gróðurhús fyrir mannætuplöntur? Afhverju ætti ég að virða kennarann minn ef hann er með svona lág laun (alvöru spurning!). Erum við fátæk? Afhverju má ég ekki fá hitt og þetta,“ skrifar Lieber þegar hann tekur dæmi um spurningar barna sem tengjast peningum. Að hans mati eru foreldrar almennt lélegir í að svara spurningum sem þessum, bægja þeim frá í stað þess fræða börnin og spyrja á móti: Hvers vegna spyrðu?
Einn viðmælanda í greininni, Daniel Parker, rifjar upp þegar faðir hans kom eitt sinn heim með poka fullan af peningum fyrir um tuttugu árum síðan. Faðir hans hafði þá farið í bankann og beðið gjaldkerann um að láta sig hafa jafnvirði mánaðarlauna í eins dollara-seðlum. Með dramatískum hætti útskýrði hann síðan fyrir krökkunum sínum hversu mikið færi í skatta, matarinnkaup, æfingagjöld og ýmis önnur útgjöld heimilisins.
Aðrar tilþrifaminni aðferðir eru einnig nefndar í greininni. Rætt er við Trishu Jones, móður sex og átta ára barna sem ganga í einkaskóla. Hún hefur útskýrt fyrir þeim hvernig einn dagur í skólanum kosti um 90 dollara eða tólf þúsund krónur. Það jafngildi flottum pakka af Lego-kubbum á hverjum degi. „Það eru forréttindi að ganga í skólann og við viljum að þau viti að við erum að færa fórnir fyrir þau,“ segir Jones.
Greinina í NY Times má lesa í heild hér.
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Næsti þáttur er á dagskrá fimmtudaginn 5. febrúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferðar til fjár.