Landsbankinn hefði betur selt eignarhluti sína í greiðslukortarfyrirtækjunum Borgun og Valitor í opnu söluferli „formsins og ásýndarinnar vegna“. Bankanum hafi hins vegar verið vandi á höndum við sölu á hlut í félögunum þar sem aðkoma hans að þeim var takmörkuð og í eigu helstu keppinauta bankans. „Bankinn gat ekki tryggt að upplýsingagjöf til hugsanlegra kaupenda yrði nægjanleg og taldi því óhjákvæmilegt að selja hlutina til aðila sem höfðu mikla innsýn í starfsemi fyrirtækjanna.“ Þetta kom fram í ræðu Tryggva Pálssonar, formanns bankaráðs Landsbankans, á aðalfundi bankans sem fór fram í dag.
Landsbankinn, sem íslenska ríkið á, sendi frá sér fréttatilkynningu í lok nóvember í fyrra þar sem fram kom að Steinþór Pálsson bankastjóri, hefði undirritað samning um sölu á 31,2 prósent eignarhlut í Borgun. Kaupverðið á hlutnum var tæplega 2,2 milljarðar króna og var kaupandi hlutarins Eignarhaldsfélag Borgunar Slf. Ekkert formlegt söluferli fór fram áður en félagið var selt. Kaupin fóru því fram bak við luktar dyr, þar sem enginn annar en hópurinn sem sýndi áhuga á kaupunum fékk að reyna að kaupa hlutinn.
Nokkrum dögum síðar var greint frá því að Arion banki hefði lagt fram kauptilboð í 38 prósent hlut Landsbankans í Valitor.
Var áhrifalaus minnihlutaeigandi
Í ræðunni á aðalfundinum í dag sagði Tryggvi: „Salan á eignarhlutunum í Borgun og Valitor krafðist mestrar umhugsunar enda má segja að landslagi greiðslukortamarkaðarins hafi verið breytt. Undanfarin ár hefur Landsbankinn verið áhrifalaus minnihlutaeigandi í greiðslukortafyrirtækjunum. Í samræmi við sátt sem gerð var við Samkeppniseftirlitið árið 2008 voru miklar takmarkanir á aðkomu Landsbankans sem hluthafa að starfsemi þeirra. Ennfremur hefur það verið markmið samkeppnisyfirvalda að aðeins einn banki sé hluthafi í hverju greiðslukortafyrirtæki á hverjum tíma. Þessi staða var óviðunandi fyrir Landsbankann og því teljum við söluna vera farsæla úrlausn fyrir bankann. Samhliða sölu eignarhlutar bankans í Valitor var gerður þjónustusamningur við fyrirtækið og tekin upp bein samskipti við Visa Europe. Með því móti er vel gætt hagsmuna Landsbankans og viðskiptavina hans.
Gagnrýnt var að sala eignarhluta í greiðslukortafyrirtækunum fór ekki fram í opnu söluferli. Við hefðum betur gert það formsins og ásýndarinnar vegna en bankanum var vandi á höndum við sölu á hlut í þessum félögum þar sem aðkoma hans að þeim var takmörkuð og helstu keppinautar á markaði eigendur þeirra. Bankinn gat ekki tryggt að upplýsingagjöf til hugsanlegra kaupenda yrði nægjanleg og taldi því óhjá- kvæmilegt að selja hlutina til aðila sem höfðu mikla innsýn í starfsemi fyrirtækjanna.“
Arðsemi of lág
Tryggvi fjallaði einnig um þá gagnrýni sem komið hefur fram á góða afkomu Landsbankans, en bankinn hagnaðist um 28,8 milljarða króna í fyrra og hefur samtals hagnast um tæplega 142 milljörðum króna frá upphafi árs 2009.
Tryggvi sagði að bankaráðsmenn og stjórnendur bankans telji hins vegar arðsemi bankans sé of lág. „Eigið fé bankans nemur um 250 ma. kr. sem gera verður eðlilegar kröfur til um arðsemi. Arðsemin hefur vissulega verið há undanfarin ár en drjúgur hluti af hagnaðinum skýrist af virðisbreytingum útlána, gengishagnaði, hagnaði af eignum á markaði og sölu eigna. Viðbúið er að þessir liðir skili litlu á næstu árum og því eru allar horfur á að arðsemi bankans minnki. Þegar stórum einskiptisliðum sleppir þá var arðsemin á liðnu ári um 5-6% sem er of lágt.
Bankasýslan sem fer með eignarhlut ríkisins í bankanum hefur lagt að bankaráðinu að bæta reglubundinn rekstur með lækkun kostnaðar og aukningu þjónustutekna. Við erum sammála þeirri kröfu og einmitt þess vegna höfum við mótað nýja stefnu fyrir bankann sem miðar að því að ná arðsemi af reglubundnum rekstri yfir 10% á næstu fjórum árum,“ sagði Tryggvi.