Eyjólfur Ármannsson verður oddviti framboðslista Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum í dag.
Hann er formaður Orkunnar okkar, samtaka þeirra sem vilja standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt Íslands í orkumálum, sem voru afar áberandi í umræðunni um nokkuð skeið á yfirstandandi kjörtímabili, er tekist var á um samþykkt hins svokallaða þriðja orkupakka Evrópusambandsins á þingi árið 2019.
Eyjólfur var einn aðalhöfunda skýrslu sem samtökin unnu um málið, sem bar titilinn „Áhrif inngöngu Íslands í orkusamband ESB“. Oddvitinn er lögfræðingur að mennt, með meistarapróf í lögfræði frá HÍ og LL.M. frá University of Pennsylvania.
Hann hefur starfað sem lögfræðingur bæði á Íslandi og í Noregi, fyrir m.a. fjármálaráðuneytið, Isavia, Nordea og DNB. Eyjólfur hefur undanfarið gætt hagsmuna landeigenda í Arnarfirði og Dýrafirði í þjóðlendumálum sem eru til meðferðar hjá Óbyggðanefnd.
Eyjólfur ólst upp í Vestmannaeyjum en er ættaður úr Lokinhamradal í Arnarfirði þar sem hann var tíðum í sveit sem ungur maður, samkvæmt því sem segir í tilkynningu frá Flokki fólksins.