„Launafólk hefur verið niðurlægt þrisvar á rúmum sólarhring. Fyrst af seðlabankastjóra, svo af fjármálaráðherra og loks af Samtökum atvinnulífsins.“ Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, en stéttarfélagið, það stærsta á Íslandi, sleit í gærkvöldi viðræðum sínum um gerð kjarasamnings við Samtök atvinnulífsins.
Ragnar segir að ákvörðun Seðlabanka Íslands um að hækka stýrivexti á miðvikudag, og orð Ásgeirs Jónssonar um að ástæður þeirrar hækkunar væri eyðsla heimilanna, hafi sent kjaraviðræður á mjög viðkvæman stað. Í gærmorgun hafi Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra boðað aðila vinnumarkaðarins á fund til að reyna að draga úr spennunni sem hafði myndast. „Fjármálaráðherra kemur svo nánast strax í kjölfarið með yfirlýsingu á Peningamálafundi Viðskiptaráðs þar sem hann tekur nánast undir hvert orð seðlabankastjóra og segir að við þurfum að vakna. Hér sé vandamálið fyrst og fremst kröfur verkalýðshreyfingarinnar. Þegar tilboð Samtaka atvinnulífsins um skammtímasamning bættist við var alveg ljóst að við gætum ekki dvalið við þetta lengur. Ég var með umboð til að slíta viðræðum og nýtt það umboð. Ég fundaði svo með samninganefndinni í morgun og þar er algjör einhugur um þessa ákvörðun. Hún er tekin af yfirvegun og upplýstu mati á stöðunni í hagkerfinu.“
Segir að það ríki í raun góðæri
Ragnar Þór segir allar greiningar VR sem unnar hafi verið vegna kjarasamningagerðar sýna að afkoma margra fyrirtækja sé gríðarlega góð. Það ríki í raun góðæri. Það sé eðlileg krafa að kalla eftir því að launafólk fái hlutdeild í henni en verði ekki gert að sætta sig við minnkandi kaupmátt. Það megi til að mynda benda á að methagnaður var í sjávarútvegi í fyrra þegar geirinn hagnaðist um 65 milljörðum króna eftir skatta og gjöld. Alls jókst hagnaðurinn um 124 prósent milli ára. Þá hafi vaxtatekjur stærstu bankanna þriggja aukist um 16,9 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins í ár þegar þær eru bornar saman við sama tímabil í fyrra. Fjölmörg fyrirtæki hafi auk þess velt kostnaðarhækkunum út í verðlagið og varið, jafnvel aukið, arðsemi sína með þeim aðgerðum.
Ragnar Þór segir næstu skref vera þau að fylgjast með því sem gerist í kjaraviðræðum Starfsgreinasambandsins og iðnaðarmanna. „Við förum í það að upplýsa okkar félagsfólk og almenning í landinu um það sem var í boði og þá stöðu sem okkar greiningar sýna að sé uppi í hagkerfinu. Hver afkoma fyrirtækjanna er í raun og hversu burðug þau eru til að milda það högg sem heimilin eru að verða fyrir. Við munum viðhalda samfloti við Starfsgreinasambandið og mögulega víkka það út með til dæmis iðnaðarmönnum og kannski Eflingu um mögulegar aðgerðir.“
Tene-tal seðlabankastjóra hleypti öllu upp
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað að hækka stýrivexti í tíunda skiptið í röð á miðvikudag, og eru þeir nú sex prósent. Hinar miklu vaxtahækkanir hafa aukið greiðslubyrði íbúðalána gríðarlega. Kjarninn greindi frá því fyrr í dag að greiðslubyrði 50 milljón króna óverðtryggðs láns á breytilegum vöxtum hafi aukist um næstum 1,5 milljónir króna á ári miðað við þau vaxtakjör sem voru í boði áður en vaxtahækkunarferlið hófst í maí í fyrra.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á kynningarfundi í kjölfar hækkunarinnar að þjóðin væri „bara dálítið að eyða og spenna.“ Vöxtur einkaneyslu væri að koma niður á gengi krónunnar og því þyrfti að hækka vexti áfram. Það væri mikill vöruskiptahalli til staðar. „Þegar þjóðin er að fara á Tene, það kostar gjaldeyri.“ Seðlabankinn gæti ekki verið að eyða gjaldeyrisvaraforðanum í inngrip til að verja krónuna fyrir veikingu vegna þessa. Hann gæti „ekki fjármagnað Tene-ferðir úr forðanum.“ Fyrir liggur að hin aukna einkaneysla er dregin áfram af uppsöfnuðum sparnaði og auknum ráðstöfunartekjum á undanförnum árum, en ekki aukinni skuldasöfnun. Hærri vextir bíta ekki nýtingu sparnaðar.
Ummæli Ásgeir féllu ekki í góðan jarðveg, hvorki hjá verkalýðsforystunni né Samtökum atvinnulífsins. Rökstuðningurinn fyrir stýrivaxtarhækkuninni var auk þess sagður þunnur og Seðlabankinn lá undir ámæli fyrir að hafa sett kjarasamningaviðræður í uppnám.
Þess vegna boðaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra aðila vinnumarkaðarins á fund í gærmorgun. Samkvæmt heimildum Kjarnans var óljóst á fundinum hvað stjórnvöld ætluðu að koma með nýtt að borðinu en minnt var á að starfandi væru hópar sem ætlað er að koma með jákvæðar tillögur í húsnæðismálum og umbætur á barnabótakerfinu. Tilgangurinn var að reyna að slökkva þá elda sem seðlabankastjóri hafði kveikt daginn áður.
Bjarni hellti olíu á eldinn
Skömmu síðar mætti Bjarni Benediktsson á Peningamálafund Viðskiptaráðs og hellti þar olíu á ný á þá elda. Samkvæmt endursögn Innherja, undirvefs Vísis sem fjallar um efnahagsmál og viðskipti, sagði Bjarni þar meðal annars. „Við þurfum aðeins að vakna.“ Þótt vaxtahækkun Seðlabankans hafi verið köld vatnsgusa fyrir einhverja þá kunni hún að hafa sent nauðsynleg skilaboð til aðila vinnumarkaðarins.
„Vandamálið er ekki Ásgeir Jónsson,“ sagði Bjarni, heldur skortur á samhljómi milli þeirra aðila sem væru að reyna að gera kjarasamninga. Sumir væru að krefjast mikilla krónutöluhækkana en aðrir prósentuhækkana. Kröfugerðir tækju aðeins mið af „punktstöðunni“ um þessar mundir en verðbólga mælist núna 9,4 prósent. Við sem þjóð værum föst í því að „biðja alltaf um aðeins meira“ en þjóðarbúið stæði undir hverju sinni. Þessar hugmyndir sagði Bjarni að væru óraunhæfar.
Þessar yfirlýsingar Bjarna fóru verulega illa í forystufólk verkalýðshreyfingarinnar. Þegar við bættist það tilboð sem Samtök atvinnulífsins lögðu fyrir VR í gærkvöldi var ekki lengur við setið, og viðræðum slitið.