Ein ríkasta unga kona Bandaríkjanna, samkvæmt Forbes, er Elisabeth Holmes, þrítug að aldri. Eignir hennar eru metnar á 4,5 milljarða Bandaríkjadala eða sem nemur um 550 milljörðum króna. Holmes hætti námi í Stanford háskóla þegar hún var 19 ára og ákvað að eyða öllum sparnaði sínum í að stofna fyrirtæki í kringum uppfinningu sem hún hafði unnið að, sem snéri að framkvæmd blóðprufa. Fyrirtæki hennar, Theranos, hefur unnið að þróun hugmyndarinnar allt frá árinu 2003 en Holmes hefur sjálft stýrt öllum fjármagnssöfnunum fyrirtækisins. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Samtals hafa fjárfestingarsjóðir í Kaliforníu lagt fyrirtækinu til 400 milljónir Bandaríkjadala og hafa verðlagt félagið á ríflega 9 milljarða Bandaríkjadala, eða ríflega þúsund milljarða króna.
Holmes á helminginn í félaginu, sem þýðir að hlutur hennar er metinn á 4,5 milljarða dala, eins og fyrr segir. Walgreens, ein stærsta lyfjaverslunarkeðja Bandaríkjanna, með um 8.100 búðir í Bandaríkjunum, ákvað að veðja á blóðuprufuaðferðir Theranos en helsti styrkileiki þeirra er að kostnaðurinn er aðeins brotabrot af því sem blóðaprufur kosta almennt í dag og áreiðanleikinn er auk þess mikill. Nákvæmar niðurstöður er hægt að fá með aðeins einum dropa af blóði. Flest bendir til þess að Theranos verði risavaxið fyrirtæki í framtíðinni.