Helle Thorning-Schmidt, forsætisráðherra Danmerkur, boðaði á blaðamannafundi, í danska forsætisráðuneytinu í morgun, að þingkosningar verði haldnar í landinu þann 18. júní næstkomandi.
Undanfarna mánuði hafa verið uppi vangaveltur um hvenær blásið yrði til kosninga í Danmörku, en eftir tilkynningu forsætisráðherrans í morgun getur kosningabarátta dönsku stjórnmálaflokkanna formlega hafist. Flestir sáu reyndar í hvað stefndi, og því gefur nú þegar að líta kosningaplaggöt víða í Kaupmannahöfn, en óheimilt er samkvæmt dönskum lögum að hefja eiginlega kosningabaráttu fyrr en formlega hefur verið tilkynnt um þingkosningar.
Þingkosningarnar í Danmörku koma í kjölfar tillagna ríkisstjórnarinnar varðandi málefni flóttamanna, áframhaldandi vöxt danska þjóðarbúsins og þá var allsherjar velferðarpakki kynntur á dögunum. Þrátt fyrir sterkari stöðu nú en oft áður bíður Helle Thorning-Schmidt verðugt verkefni að tryggja sér fjögur ár í viðbót í danska forsætisráðuneytinu.
Bláa blokkin mælist með meirihluta atkvæða
Þrátt fyrir gott gengi Sósíaldemókrata Thorning-Schmidt í skoðanakönnunum að undanförnu mælist nú bláa blokkin svokallaða með meirihluta atkvæða. Þar fer Lars Løkke Rasmussen, formaður Venstre, fremstur í flokki, en til bláu blokkarinnar teljast sömuleiðis danski þjóðarflokkurinn, sem hefur aukið fylgi sitt mikið að undanförnu, og danski íhaldsflokkurinn.
Til rauðu blokkarinnar í dönskum stjórnamálum teljast Sósíaldemókratar, Einingarlistinn, Radikale venstre og stuðningsflokkur ríkisstjórnar Thorning-Schmidt, Sósíalíski þjóðarflokkurinn, sem sagði sig úr ríkisstjórninni eftir umdeilda sölu ríkisins á eignarhluti sínum í orkufyrirtækinu DONG til Goldman Sachs. Þá hefur Sósíalíski þjóðarflokkurinn sömuleiðis logað í innanflokksátökum að undanförnu, og tapað miklu fylgi í kjölfarið.
Þrátt fyrir að skoðanakannanir bendi til að bláa blokkin nái meirihluta í komandi þingkosningum í Danmörku nýtur Helle Thorning-Schmidt mun meira persónufylgis en hinn umdeildi Lars Løkke Rasmussen formaður Venstre. Danskir stjórnmálaskýrendur telja því að allt geti gerst, og spennandi og snörp kosningabarátta sé framundan í landinu.