Samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna verður lögð niður samkvæmt frumvarpi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um Stjórnarráð Íslands. Í staðinn fyrir nefndina stendur til að forsætisráðuneytið sjálft gefi stjórnvöldum ráð um túlkun siðareglna þegar eftir því er leitað.
Í siðanefndinni áttu sæti sjö einstaklingar og hún er skipuð til þriggja ára. Forsætisráðherra hefur ekki skipað nefndina eftir að síðasta skipun rann út haustið 2013. Í desember síðastliðnum hvatti Ríkisendurskoðun til þess að ráðuneytið skipaði nýja nefnd í samræmi við ákvæði laga. Það var gert í tengslum við könnun Ríkisendurskoðunar á þekkingu starfsmanna Stjórnarráðsins á siðareglum fyrir starfsfólk Stjórnarráðs Íslands. Í könnuninni kom fram að stór hluti starfsmanna taldi sig ekki þekkja siðareglurnar vel.
Samkvæmt núgildandi lögum um Stjórnarráð Íslands á samhæfingarnefndin meðal annars:
a. að stuðla að því að siðferðileg viðmið séu í hávegum höfð í opinberum störfum og veita stjórnvöldum ráðleggingar um ráðstafanir til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og spillingu,
b. að veita umsögn um drög að siðareglum á grundvelli laga þessara og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og gefa stjórnvöldum ráð um túlkun þeirra,
c. að beita sér fyrir upplýsingaöflun og fræðirannsóknum á málefnasviði nefndarinnar,
d. að stuðla að því að brugðist sé með samhæfðum hætti við ábendingum eftirlitsembætta Alþingis og öðrum tiltækum upplýsingum um brot á siðareglum eða hættu á spillingu hjá ríkinu.
Tveir gagnrýnt í þinginu
Í frumvarpinu sem nú til umfjöllunar á Alþingi er þessi nefnd lögð niður sem fyrr segir. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að „með hliðsjón af fenginni reynslu verður vart talin þörf á sérstakri lögbundinni nefnd til að sinna því hlutverki sem samhæfingarnefndinni hefur verið ætlað.“ Í staðinn sé þessu hlutverki betur sinnt innan ráðuneytisins, en í nánu samráði við eftirlitsstofnanir Alþingis, félagasamtök, stofnanir og embætti sem vinna gegn spillingu.
Þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mælti fyrir frumvarpinu í þinginu í lok nóvember sagði hann að aðeins fáein erindi hafi borist samhæfingarnefndinni þegar hún var við störf og að forsætisráðuneytið hefði sinnt þeim erindum eftir að skipunartími hennar rann út.
Bæði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, varaþingkona Vinstri grænna, hafa vakið athygli á málinu í umræðum um frumvarp Sigmundar Davíðs í þinginu undanfarna daga.
„Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ætlar sér sjálfur að leggja mat á siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna og þar með leggja mat á siðferðileg viðmið ráðherra sinnar eigin ríkisstjórnar. Ég get ekki skilið það öðruvísi en svo að með þessu sé forsætisráðherra að taka sér nánast einræðisvald um túlkun siðareglna sem eiga við alla stjórnsýsluna,“ sagði Rósa Björk meðal annars í sinni ræðu í gær.
„Mér finnst þarna verið heldur mikið tekið út og frekar einfalt vald sett í staðinn,“ sagði Helgi Hrafn. Hann sagðist ekki annað en munað eftir lekamálinu, þar sem spurningar hafi vaknað um siðareglur, gildi þeirra og svo framvegis. „Sömuleiðis þykir mér óþægilegt, svo meira verði ekki sagt, að það sé forsætisráðuneytið sjálft sem sé einfaldlega í því að túlka þetta, ef ég skil þetta rétt.“