Forsætisráðuneytið telur, eftir á að hyggja, að betur hefði farið á því að einhver af æðstu embættismönnum þjóðarinnar hefði mætt til samstöðugöngunnar í París á sunnudag. Þrátt fyrir það hefur franska sendiráðið hér á landi sagt frönsk stjórnvöld sýna því fullan skilning að staðgengill sendiherra hafi tekið þátt í göngunni fyrir hönd landsins.
Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu frá forsætisráðuneytinu. Í henni kemur fram að íslensk stjórnvöld hafi ítrekað komið samúðarkveðjum og yfirlýsingum um samstöðu og stuðning á framfæri við frönsk stjórnvöld.
„Skrifaði forsætisráðherra meðal annars starfsbróður sínum Manuel Valls, sérstakt samúðarskeyti og afhenti sendiherra Frakklands á fundi þeirra hinn 8. janúar sl. Þá var iðnaðar- og viðskiptaráðherra viðstödd samstöðufund við franska sendiráðið síðar þann dag. Forseti Íslands og utanríkisráðherra hafa ennfremur komið á framfæri samúðarkveðjum.”