„Við fengum þarna einhverjar vínflöskur og flugelda og konfektkassa. Svo náttúruleg eigum við einhverja hádegisverði og kvöldverði með ráðgjöfum og svo framvegis. En ekkert annað.“ Þetta sagði Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, þegar Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar, spurði hann á opnum fundi fjárlaganefndar í morgun hvort hann hefði þegið boð, gjafir, risnu eða annað slíkt í kjölfar eða í aðdraganda beggja útboða sem fram hafa farið með hluti ríkisins í Íslandsbanka. Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslunnar, svaraði sömu spurningu neitandi fyrir sitt leyti.
Nefndarmenn fóru í kjölfarið fram á frekari svör um málið og Jón Gunnar sagðist ætla að taka saman minnisblað um þessar gjafir og greiddu hádegisverði.
Fundurinn í morgun kom til vegna mikillar gagnrýni á sölu á 22,5 prósent hlut íslenska ríkisins í Íslandsbanka 22. mars síðastliðinn á 52,65 milljarða króna. Alls 207 fjárfestar fengu þá að kaupa hluti á verði sem var samanlagt 2,25 milljörðum króna undir markaðsvirði bankans í lokuðu útboði sem fór fram samkvæmt tilboðsleið.
Kjarninn sendi fyrirspurn á Bankasýslu ríkisins, stjórnarformann hennar og forstjóra þann 10. apríl síðastliðinn þar sem spurt var: „Hafa stjórnarmenn eða starfsmenn þegið einhverjar gjafir eða boðsferðir frá einhverjum þeirra ráðgjafa sem ráðnir voru til að sinna sölumeðferð á hlut í Íslandsbanka í síðasta mánuði?“
Hagsmunarárekstrar til skoðunar hjá Fjármálaeftirlitinu
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands er að skoða háttsemi einhverra þeirra fimm innlendu söluaðila sem Bankasýslan valdi til að vinna að útboðinu. Heimildir Kjarnans herma að þar sé verið að skoða mögulega hagsmunaárekstra, meðal annars vegna þess að starfsmenn sumra söluráðgjafa hafi sjálfir tekið þátt í útboðinu.
Þegar listi yfir kaupendur á 22,5 prósent hlut ríkisins í Íslandsbanka var birtur kom þetta í ljós. Alls átta starfsmenn Íslandsbanka tóku þátt í útboðinu og stærsti eigandi Íslenskra Verðbréfa, sem er einnig eiginkona forstjóra fyrirtækisins, keypti auk þess hlut.
Aðrir innlendir söluráðgjafar voru Fossar markaðir, sem var aðal innlendi söluráðgjafi Bankasýslunnar, ACRO verðbréf og Landsbankinn.
Í minnisblaði Bankasýslunnar til fjárlaganefndar, sem birt var í gær, kom fram að það væri stofnuninni „mikil vonbrigði að strax í kjölfar útboðsins hefðu vaknað spurningar um mögulega bresti í framkvæmd þess, m.a. hugsanlega hagsmunaárekstra hjá aðilum sem stóðu að framkvæmd sölunnar og mögulega ófullnægjandi athugun á hæfi fjárfesta sem tóku þátt í útboðinu.“
Á fundi fjárlaganefndar í dag sagði Jón Gunnar að allir fimm innlendu söluráðgjafarnir hefðu fengið fyrirspurnir frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands vegna rannsóknar þess, en að það lægi ekki fyrir að grunur væri um möguleg brot á reglum eða lögum gagnvart þeim öllum.
Búið að greiða út stóran hluta af grunnþóknun
Allir söluráðgjafarnir sem Bankasýslan valdi áttu samtals að fá 703 milljónir króna fyrir starf sitt við útboðið. Þar af áttu innlendir söluráðgjafar að fá 322,5 milljónir króna. Sú upphæð skiptist þannig að 193,5 milljónir króna áttu að greiðast í svokallaða grunnþóknun en 129 milljónir króna í svokallaða valkvæða þóknun. Bankasýslan hefur þegar greitt 79 milljónir króna í grunnþóknun en lögmenn hennar skoða nú hvort möguleiki sé að halda þeim 114,5 milljónum króna sem eftir standa af henni eftir. Aðspurður um greiðslu valkvæðu þóknunarinnar sagði Jón Gunnar: „Valkvæða þóknunin, við þurfum ekki að greiða hana.“
Staðan er öðruvísi hvað varðar erlendu söluráðgjafanna í útboðinu Þeir eru þegar búnir að fá 158 af 201,4 milljón króna grunnþóknun sinni greidda og ógreidd valkvæð þóknun til þeirra er 134,4 milljónir króna.
Í áðurnefndu minnisblaði Bankasýslu ríkisins, sem birt var í gær, segir að engin ákvörðun verði tekin um greiðslu á valkvæðri þóknun „fyrr en að niðurstaða athugunar Fjármálaeftirlits Seðlabanka („FME“) liggur fyrir og hefur stofnunin sagt opinberlega að ef einhverjir söluráðgjafar hafi brugðist stofnuninni þá muni valkvæð þóknun vera skert eða ekki greidd út.“
Fjármálaráðgjafi Bankasýslunnar er búinn að fá allar þær 39,5 milljónir króna sem hann átti að fá greiddar og lögmenn sem unnu fyrir hana í ferlinu 3,6 af 5,1 milljón króna.