Kostnaður Festi hf. vegna starfslokasamnings við Eggert Þór Kristófersson forstjóra félagsins nemur um 76 milljónum króna og verður hann allur bókfræður á þriðja ársfjórðungi. Þetta kemur fram í skýrslu nýskipaðrar stjórnar í árshlutauppgjöri félagsins, sem birt var síðdegis í gær.
Starfslokasamningur við Eggert Þór var undirritaður 2. júní og tekur uppsögn hans gildi 31. júlí. Miðað við þann 76 milljóna kostnað sem stjórn Festi áætlar mun Eggert Þór við starfslokin fá greiðslu sem nemur um fimmtán mánaðarlaunum hans. Þá er miðað við meðalmánaðarlaun forstjórans eins og þau voru í fyrra, en þá voru þau um 4,9 milljónir króna.
Í skýrslu stjórnar í árshlutareikningnum segir um uppsögn forstjórans að stjórninni hafi þótt kominn tími á að skipta um forstjóra þar sem félagið, sem á meðal annars N1, Krónuna og Elko, stæði á ákveðnum krossgötum.
Sú skýring er, eins og frægt hefur orðið, önnur en sú sem hluthöfum félagsins og öðrum þáttakendum á markaði var boðið upp á tilkynning barst frá Festi um starfslok Eggerts Þórs í byrjun júní. Þá yfirlýsingu mátti skilja sem svo að frumkvæðið að starfslokunum hefði komið frá forstjóranum sjálfum. Olli það úlfúð innan hluthafahópsins og leiddi til þess að farið var fram á nýtt stjórnarkjör í Festi, sem fram fór 14. júlí.
Þar tóku þrír nýir stjórnarmenn sæti, þau Magnús Júlíusson, Sigurlína Ingvarsdóttir og Hjörleifur Pálsson, en af fyrrum stjórnarmönnum héldu einungis stjórnarformaðurinn Guðjón Reynisson og Margrét Guðmundsdóttir sætum sínum í stjórn félagsins.
Er Eggert Þór hættir störfum núna í lok mánaðar tekur Magnús Kr. Ingason fjármálastjóri félagsins tímabundið við starfi forstjóra Festi.
Rekstur Festi með ágætum
Festi hagnaðist um rúmlega 1,3 milljarða króna á öðrum ársfjórðungi, eða frá lokum mars og fram í lok júní. Í tilkynningu frá félaginu um afkomuna var haft eftir Eggerti Þór að reksturinn hefði gengið vel og verið umfram áætlanir stjórnenda félagsins.
„N1 eykur veltu sína og afkomu verulega á milli ára með fjölgun erlendra ferðamanna og auknum umsvifum hjá stórum viðskiptavinum félagsins. Rekstur ELKO og Krónunnar var einnig góður á öðrum ársfjórðungi. Hækkun á eldsneyti og matvöru eykur fjárbindingu í birgðum verulega miðað við sama fjórðung í fyrra, sem er afleiðing stríðsreksturs í Úkraínu og alþjóðlegrar verðbólgu,“ var haft eftir Eggerti Þór í tilkynningunni.