Lýður Þ. Þorgeirsson, forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Arion banka, sagði upp störfum í bankanum í lok síðustu viku. Þetta staðfestir Haraldur Guðni Eiðsson, upplýsingafulltrúi Arion banka í svari til Kjarnans.
Uppsögnin kom í kjölfar þess að tilkynnt var um miklar breytingar á framkvæmdastjórn Arion banka eftir að Ásgeir H. Reykfjörð Gylfason, sem verið hafði aðstoðarbankastjóri og framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs Arion banka frá árinu 2019, hætti og réð sig sem forstjóra SKEL fjárfestingafélags.
Við starfi aðstoðarbankastjóra tók Iða Brá Benediktsdóttir sem starfað hefur hjá Arion banka og forverum frá árinu 1999. Hún er einnig framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs og mun gegna þeirra stöðu áfram samhliða starfi aðstoðarbankastjóra.
Hákon Hrafn Gröndal, lánastjóri á fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviði, var ráðinn framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs í stað Ásgeirs.
Lýður var upphaflega ráðinn til Arion banka sem framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs árið 2017. Hann hafði áður starfa hjá GAMMA frá 2010. Samhliða tók Lýður sæti í framkvæmdastjóri bankans.
Jón Finnbogason tekur við Stefni
Á sama tíma og opinbert varð frá því að Ásgeir hefði farið til SKEL greindi Arion banki frá því að Margrét Sveinsdóttir, sem verið hefur framkvæmdastjóri eignastýringar og síðar markaða frá árinu 2009, muni láta af störfum á næstu vikum.
Jóhann Möller, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra Stefnis undanfarin ár, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri markaða og mun taka sæti í framkvæmdastjórn Arion banka á næstu vikum.
Jóhann hefur verið framkvæmdastjóri Stefnis frá árinu 2020 og starfað á fjármálamarkaði í rúm 20 ár.
Í dag var greint frá því að Jón Finnbogason taki við sem framkvæmdastjóri Stefnis. framkvæmdastjóra. Síðan 2017 hefur Jón starfað sem útlánastjóri Arion banka og frá árinu 2019 hefur hann verið forstöðumaður fyrirtækja innan fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs bankans.