Það hefur vart farið framhjá knattspyrnuáhangendum og áhugamönnum um fjármál íþrótta- og afþreyingariðnaðarins að enska úrvalsdeildin setti met í leikmannakaupaeyðslu í félagaskiptaglugganum sem lokað var í byrjun þessarar viku. Alls eyddu liðin 20 sem í deildinni spila 835 milljónum punda, um 162 milljörðum króna, í að manna leikmannahópana sína þetta sumarið, samkvæmt samantekt endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte.
Gamla metið var slegið með stæl. Það var sett í fyrrasumar þegar félögin eyddu 630 milljónum punda, um 122 milljörðum króna, í nýja liðsmenn. Eyðslan var líka umtalsverð í hinum stóru Evrópudeildunum. Á Spáni eyddu liðin til dæmis 425 milljónum punda. Þar af eyddu stórliðin Barcelona og Real Madrid 230 milljónum punda, 55 prósentum þess sem eytt var.
Eyddu meiru en heildarvirði 14 liða
Í Englandi eyddu stærstu félögin að venju mestu. Manchester United hoppaði loks á vagninn með nágrönnum sínum í City og fjendunum í Chelsea og eyddi yfir 100 milljónum punda í einum glugga. Raunar eyddi United, sem gekk afleitlega á síðasta tímabili og hefur byrjað það yfirstandandi hörmulega, um 150 milljónum punda í nýja leikmenn, sem er líka enskt met.
Til að setja þá upphæð í samhengi má benda á að samkvæmt útreikningum heimasíðunnar transfermarkt.co.uk eiga einungis sex félög í ensku úrvalsdeildinni hópa þar sem markaðsvirðið er talið vera yfir 150 milljónir punda. Þau verðmætustu eru Manchester United (394 milljónir punda), Chelsea (391 milljónir punda), Manchester City (385 milljónir punda), Arsenal (361 milljón punda), Liverpool (293 milljónir punda) og Tottenham (233 milljónir punda). Hin liðin 14 eru með leikmannahópa sem í eru á bilinu 22 til 30 leikmenn, þar sem markaðsvirðið er metið lægra en sú upphæð sem Manchester United eyddi í nýja leikmenn í sumar.
Hvað veldur?
Ein helsta ástæðan fyrir þessum aukna fjáraustri er stórauknar tekjur félaganna í ensku úrvalsdeildinni vegna nýs sjónvarpsréttarsamnings sem tók gildi á síðustu leiktíð.Heildarvirði samningsins er 5,5 milljarðar punda, 1.067 milljarðar króna.
Samningurinn er þannig samsettur að hann bætir stöðu ríkari og stærri félaganna. Helmingur upphæðarinnar dreifist jafnt milli félaganna 20. Fjórðungur dreifist síðan mismunandi eftir því í hvaða sæti liðin lenda í deildinni og fjórðungur skiptist eftir því hversu marga leiki bresku sjónvarpsstöðvarnar sem eiga réttinn, BT og Sky, sýna með hverju liði. Fyrir síðustu leiktíð fékk Liverpool, sem lenti í öðru sæti, til að mynda mest greitt, alls 97,5 milljónir punda, vegna þess að liðið er vinsælt sjónvarpsefni.
Nýi samningurinn hækkaði hins vegar greiðslur allra félaganna 20 gríðarlega. Að meðaltali fá þau um 25 milljónum punda meira en þau fengu árlega samkvæmt síðasta samningi. Cardiff, sem var í neðsta sæti á síðasta tímabili, fékk til að mynda meira greitt (62,1 milljón punda) vegna sjónvarpsréttar en meistarar ársins á undan, Manchester United, fengu á því ári, (60,8 milljónir punda).
Hinar auknu tekjur skiluðu því að ein vinsælasta aukaafurð knattspyrnuheimsins, kaup og sölur á leikmönnum, tók gríðarlegan kipp, enda geta þeirra til að greiða hátt kaupverð og forstjóralaun fyrir vara-vinstri bakvörð enn meiri nú en áður.
Fótboltamenn verða fjármálaafurð
Fjármálaheimurinn, sem er alltaf að leita sér að nýjum leiðum til að græða peninga, hefur ekki látið þessa þróun framhjá sér fara. Lengi hefur tíðkast í sumum hlutum heimsins, sérstaklega Suður-Ameríku, að fjárfestar kaupi raunverulega hluti í leikmönnum og græði ævintýralega á þeim þegar þeir eru seldir til stórliða í Evrópu. Frægasta dæmi um slík viðskipti á undanförnum árum er líklega salan á stórstirninu Neymar til Barcelona.
Þessi fjárfestingarhegðun er þó hægt og rólega að festa rætur í Evrópu, sérstaklega í Suður-Evrópu. Það hefur færst í aukanna í löndum eins og Portúgal að fjárfestingarsjóðir „hjálpi“ knattspyrnufélögum að kaupa leikmenn með því að leggja fram hlutfall af kaupverði þeirra. Á móti fá þeir sama hlutfall af söluverðinu ef leikmennirnir eru seldir áfram. Þeir sem standa í þessum bransa segja þetta til hins góða. Áhættan af leikmannakaupum flytjist enda af knattspyrnufélögunum að hluta en á sama tíma auki þetta fyrirkomulag möguleika þeirra til að „eignast“ frábæra knattspyrnumenn.
Nútíma þrælahald
Málið er hins vegar ekki alveg svona klippt og skorið og margir hafa áhyggjur af stöðu mála. Viðskipti með leikmenn í eigu þriðja aðila hafa til að mynda verið bönnuð í Englandi og Frakklandi og ýmsir framámenn innan UEFA og FIFA hafa fordæmt slíkt fyrirkomulag. Vandamálið er að það er mjög einfalt að fara framhjá þessum bönnum. Þegar félag hefur áhuga á leikmanni í eigu þriðja aðila getur utanaðkomandi fjárfestirinn gert samkomulag við sölufélagið um að „lána“ til að kaupa sig út áður en salan gengur í gegn. „Lánið“ er síðan greitt eftir að salan er kláruð og kaupendafélagið hefur greitt uppsett verð.
Michel Platini, forseti UEFA, var spurður að því af frönsku sjónvarpsstöðinni France 2 í fyrrahaust hvort það væri verið að gera eitthvað í þessum málum. „Ég hef reynt,“ sagði Platini, „en það vill enginn hlusta“.
Jérome Valcke, framkvæmdastjóri FIFA, var hins vegar töluvert ómyrkari í máli í sama sjónvarpsþætti. „Þetta er óviðunandi; þetta er nútíma þrælahald“
Það er ekki bara siðferðislegi hluti fyrirkomulagsins sem stuðar knattspyrnuhreyfinguna, enda er hún kannski ekki þekkt fyrir að hengja sig of fast í siðferðisleg viðmið. Það þarf ekki að gúggla Sepp Blatter, forseta FIFA, lengi til að finna dæmi því til stuðnings. Það sem truflar líka er að fjármálamennirnir sem nú sitja að samningaborðinu eru bara með fjárhagslega hagsmuni að leiðarljósi. Sagan hefur sýnt að þegar þeir festa lag sitt við nýjar fjármálaafurðir, verða skapandi í viðskiptum, endar það vanalega með ósköpum. Spyrjið bara þá sem tóku þátt í viðskiptum með skuldabréfavafninga fyrir bankahrun. Nú eru þeir hins vegar ekki að versla með vafninga, þeir eru að versla með fólk.
Fjárfestingarfélög sem maka krókinn og keyra upp verð
Það fjárfestingarfélag sem vakið hefur mesta athygli fyrir fjárfestingar í knattspyrnumönnum síðustu misserin er Doyen Sport Investment, rekið af manni sem heitir Nelio Lucas og skráð til heimilis á Möltu. Umfang Doyen er gríðarlegt. Í apríl síðastliðnum greindi félagið frá því að fjárfestingararmur þess hefði nú safnað 100 milljónum evra, um 154 milljörðum króna, til að fjárfesta í knattspyrnumönnum. Til viðbótar ætlar Doyen sér að stofna annan sjóð, Doyen II, og safna öðrum 100 milljónum evra til sambærilegra fjárfestinga.
Félagið er ekkert að fela það sem það er að gera. Doyen er með heimasíðu þar sem allir fótboltamenn sem félagið á hlut í eru skráðir og gefur út fréttatilkynningu, reyndar á portúgölsku, þegar eitthvað stórt gerist hjá því.
Það þarf ekki að dvelja lengi við listann yfir leikmenn sem Doyen á hlut í til að átta sig á hversu mikil áhrif félagsins eru á fjáraustur enskra félaga í yfirstandandi félagaskiptaglugga. Á meðal leikmanna á skrá Doyen eru Marcos Rojo, Alvaro Negredo, Dusan Tadic og Radamel Falcao. Allt leikmenn sem ensk félög sýsluðu með í glugganum.
Sá leikmaður í eigu Doyen sem skipti félagið mestu í þessum glugga er varnarmaðurinn Eliaquim Mangala, sem Porto seldi til Manchester City á 32 milljónir punda í sumar. Doyen keypti 33 prósenta hlut í Mangala í desember 2011 á 2,7 milljónir punda. Á sama tíma keypti annað fjárfestingarfélag, Robi Plus, tíu prósenta hlut í leikmanninum. Robi Plus er stýrt af manni sem heitir Luciano D´Onofrio. Hann var framkvæmdastjóri Porto á níunda áratugnum og umboðsmaður Zinedine Zidane um skeið. Hann var líka dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir nokkrum árum fyrir stórfellt fjársvik í tengslum við sölu á knattspyrnustjörnum á borð við Christophe Dugarry og Fabrizio Ravanelli.
Það má ljóst vera að Doyen og Robi Plus, og andlitslausu fjárfestarnir á bak við sjóði þeirra, hafa grætt vel á að kaupa hlut í Mangala. Hlutur Doyen í söluandvirðinu á Mangala til Manchester City er til að mynda talinn vera tæpar 11 milljónir punda. Félagið fjórfaldaði því fjárfestingu sína.
Greinin birtist fyrst í síðustu útgáfu Kjarnans.