Öldungadeild franska þingsins hefur snúið við ákvörðun fulltrúadeildarinnar um að gera kaup á vændi ólögleg. Fulltrúadeildin ákvað fyrir sextán mánuðum síðan að innleiða sektir upp á 1.500 evrur á kaupendur vændis, og færa þar með refsinguna frá þeim sem selja vændi yfir á þá sem kaupa það.
Vændi er löglegt í Frakklandi, en það má ekki reyna að selja það á almannafæri, en vændiskonur eru oft handteknar á þeim forsendum. Sektin við því er mun hærri en átti að gilda um kaupendur, eða allt að 3.750 evrur og tveggja mánaða fangelsi. Þessu átti að breyta samkvæmt frumvarpinu og gera sölu á vændi alveg refsilausa. Frumvarpið byggði á sænsku leiðinni svokölluðu, en Svíar voru frumkvöðlar í því að hætta að refsa seljendum vændis en refsa í stað kaupendum. Íslensk löggjöf byggir einnig á fordæmi Svía.
Íhaldsmenn eru í meirihluta í öldungadeild franska þingsins og hafa verið frá því í september. Ríkisstjórn Frakklands stóð á bak við frumvarpið sem var samþykkt árið 2013 og vildi með því vinna gegn ofbeldi og vernda þann stóra hluta vændiskvenna í Frakklandi sem eru fórnarlömb mansals. Félagsmálaráðherra Frakklands, Marisol Touraine, gagnrýndi ákvörðun öldungadeildarinnar harðlega, og sagði hana ótrúlega og sýna algjöra fyrirlitningu gagnvart konum.
Stuðningsmenn frumvarpsins höfðu margir vonast til að réttarhöldin yfir Dominique Strauss-Kahn, fyrrverandi framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, myndu hafa áhrif á ákvarðanatöku öldungadeildarinnar. Maud Oliver, þingmaður fyrir sósíalista, sagði að réttarhöldin, þrátt fyrir að þau hafi svo verið blásin af, hafi varpað ljósi á sannleikann bak við vændið. „Það er ekkert val; ofbeldi er alltaf til staðar.“
Samkvæmt mati innanríkisráðuneytisins eru um 30 þúsund einstaklingar í vændi í Frakklandi, og yfir 80 prósent þeirra eru frá öðrum löndum en Frakklandi. Flestir eru frá Austur-Evrópu, Afríku, Kína og Suður-Ameríku.
Haldin voru mótmæli í París um helgina vegna málsins, en bæði frumvarpinu og óbreyttu ástandi hefur verið mótmælt, að sögn France 24. „Við þurfum að ráðast gegn mafíunni, en ekki þessum konum,“ sagði öldungardeildarþingmaðurinn Esther Benbassa á mótmælunum á laugardag. „Við höfum stigið skref aftur á bak. Og allt þetta til þess að gefa samfélaginu yfirborðssiðferði.“