Frakkar og Þjóðverjar hafa gert með sér samkomulag sem miðar að enn þéttara stjórnmálasambandi á evrusvæðinu án þess að ráðist verði í breytingar á sáttmálum Evrópusambandsins. Þetta er áfall fyrir David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sem vill reyna að ná fram breytingum á sáttmálunum fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi veru í sambandinu, sem hann hefur lofað bresku þjóðinni.
Guardian hefur eftir franska blaðinu Le Monde að Frakkar og Þjóðverjar muni leggja fram sínar breytingatillögur fyrir leiðtogafund í Brussel í júní, en á sama fundi ætli Cameron að kynna lista sinn yfir breytingar sem hann krefst fyrir hönd Breta. Cameron hefur ítrekað talað fyrir því að sáttmálar ESB verði teknir til endurskoðunar, þannig að evrusvæðið geti þétt sínar raðir en Bretar geti breytt sínu sambandi við ESB. Búist er við því að tillögur Frakka og Þjóðverja verði samþykktar á leiðtogafundinum, og það muni loka algjörlega á tilraunir Cameron til að fá sáttmála tekna upp.
David Cameron er á leið til funda við bæði frönsk og þýsk stjórnvöld í lok vikunnar. Hann er nú kominn í kosningabaráttu fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna sem hann hefur lofað að halda. Í gærkvöldi tók hann á móti forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jean-Claude Juncker. Að sögn talsmanns forsætisráðuneytisins ræddu þeir þessi mál og Juncker hafi sagst vilja finna sanngjarna lausn fyrir Breta.
Á fimmtudag heldur hann til meginlandsins og mun hitta forsætisráðherra Danmerkur, Hollands og Frakklands. Á föstudag ætlar hann að funda með forsætisráðherra Póllands áður en hann fundar með kanslara Þýskalands. Hann stefnir að því að hitta leiðtoga allra Evrópusambandsríkjanna áður en að leiðtogafundinum kemur í lok júní.
Í millitíðinni verður drottningarræða forsætisráðherrans flutt og búist er við því að útskýrt verði fyrir bresku þjóðinni hvernig þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram og hvernig verði spurt.