Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefur sett fram tilmæli til aðildarríkja sambandsins þess efnis að þau efli samtenginar flutningskerfa raforku, m.a. með aukinni uppbyggingu sæstrengja. Þetta kemur fram á vef framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, en Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja, gera einnig grein fyrir þessu á vef sínum.
Árið 2020 er hverju aðildarríki ætlað að búa að flutningsgetu til annarra ríkja á sem svarar a.m.k. tíu prósent allrar raforku sem framleidd er í landinu. Þessari stefnu er m.a. ætlað að efla orkuöryggi og bæta nýtingu raforkukerfa, og minnka þar með þörfina á að auka vinnslugetu raforku með virkjunum eða öðrum raforkuverum.
Tólf núverandi aðildarríkja ESB uppfylla ekki þessar kröfur í dag, m.a. eru það Bretland og Írland, segir á vef Samorku. Ætla má að þessar kröfur, auk kröfunnar um aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa og aukið orkuöryggi, skýri þann áhuga sem bresk stjórnvöld hafa sýnt á tengingu um sæstreng við Ísland og fleiri ríki.
Engar ákvarðanir hafa verið teknar um hvort ráðist verði í lagningu sæstrengs til Íslands, en mikill áhugi er á framvæmdinni, ekki síst hjá fjárfestum í Bretlandi. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjun, hefur í ræðu sagt lagningu sæstrengs, og sölu á rafmagni um hann, mögulega geta verið stærsta viðskiptatækifæri sem íslenska hagkerfið hafi staðið frammi fyrir.