Bandarískir starfsmenn sem hafa þurft að vinna heima hjá sér í faraldrinum hafa nú aukið framleiðni sína um fimm til átta prósent vegna fjarvinnunnar. Búist er við að tæpur helmingur allra starfa vestanhafs verði með einhverskonar fjarvinnufyrirkomulagi þegar faraldrinum lýkur, þar sem starfsmenn geta að meðaltali unnið tvo daga í viku heima hjá sér. Þetta eru niðurstöður bandarísks og mexíkósks rannsóknarhóps um fjarvinnu.
Betra viðhorf gagnvart fjarvinnu
Rannsóknarhópurinn samanstendur af vísindamönnum frá Stanford-háskóla, Chicago-háskóla og ITAM-háskóla í Mexíkó, en hann byggir sínar niðurstöður á mánaðarlegum skoðanakönnunum á bandaríska vinnumarkaðnum. Samkvæmt þessum könnunum hefur viðhorfið gagnvart fjarvinnu batnað töluvert frá byrjun faraldursins, en meirihluti svarenda segja fyrirkomulagið hafi reynst betur en búist var við.
Vinnuveitendur þar sem fjarvinna hefur verið stunduð eru einnig jákvæðari í garð fyrirkomulagsins heldur en áður, en nú búast þeir við að meira en 40 prósent af vinnunni verði unnin utan skrifstofunnar þegar faraldrinum er lokið. Þetta er nokkur munur frá því í fyrra, en þá gerðu þessir sömu vinnuveitendur ráð fyrir að fjarvinna yrði 30 prósent vinnunnar eftir faraldurinn.
Meiri reynsla komin á fyrirkomulagið
Samhliða þessari viðhorfsbreytingu benda kannanir rannsóknarhópsins til þess að framleiðni starfsmannanna hefur aukist vegna fjarvinnunnar. Ef tekið er tillit til sjálfsmats þeirra á eigið vinnuframlag á síðustu mánuðum og tímans sem sparast við að ferðast ekki til og frá vinnunni er framleiðnin nú fimm til átta prósentum meiri en hún hefði annars verið.
Nick Bloom, sem er hagfræðiprófessor við Stanford-háskóla og meðlimur rannsóknarhópsins, birti þessar niðurstöður í Twitter-færslu, sem sjá má hér að neðan, fyrr í vikunni.
Survey reported WFH efficiency has increased from about 5% to 8% during the pandemic. Firms report this is due to investment, learning and adaptation - better equipment, management practices and home-organization.
— Nick Bloom (@I_Am_NickBloom) January 16, 2022
The economics of adapting to and improving a new technology. pic.twitter.com/x5A1kcnDaW
Á myndinni hér að ofan sést hvernig framleiðnin vegna fjarvinnunnar hefur aukist á síðustu mánuðum, en samkvæmt Bloom má rekja þessa aukningu til þess að meiri reynsla hafi komist á fyrirkomulagið.
Í nýlegri viðtali rannsóknarhópsins við The Economist segir hann að fjarvinnan sé líklega komin til að vera, þar sem vinnustaðir hafi varið tíma og pening í að aðlagast þessu nýja fyrirkomulagi.