Tekjur fiskeldisfyrirtækja á Íslandi rúmlega tvöfölduðust milli áranna 2016 og 2020. Á fyrra árinu voru þær 14,4 milljarðar króna en í fyrra voru þær 33,7 milljarðar króna.
Á sama tímabili hefur framleiðslan aukist úr 15,1 þúsund tonnum á ári í 40,6 þúsund tonn, eða um 169 prósent. Langstærstur hluti framleiðslunnar er lax, eða 34 þúsund tonn.
Heildartap varð þó á starfsemi atvinnugreinarinnar í fyrra upp á 62 milljónir króna, eftir að hún hafði skilað 1,7 milljarða króna hagnaði á árinu 2019.
Þetta kemur fram í Sjávarútvegsgagnagrunni Deloitte sem kynntur var á Sjávarútvegsdeginum 2021 sem fór fram í morgun. Gagnagrunnurinn nær utan um rekstur 90 prósent sjávarútvegsfyrirtækja á Íslandi en fjárhæðirnar hafa verið uppreiknaðar til að endurspegla allan geirann.
Í fyrra bættist svo enn við og heildar útflutningsverðmæti voru 29,3 milljarðar króna, sem er meira en þrisvar sinnum það sem þau voru árið 2016.
Störfum fjölgað um 32 prósent
Þeim sem starfa í geiranum hefur hins vegar ekki fjölgað jafn mikil. Árið 2016 voru launþegar sem störfuðu við fiskeldi alls 398 talsins. Næstum þrjú árin fjölgaði þeim um 90 og í fyrra bættur 37 ný stöðugildi við.
Alls störfuðu því 525 manns í fiskeldi sem launþegar í fyrra, sem er 32 prósent fleiri en í árslok 2016.
Í kynningu Deloitte í dag kom fram að efnahagsreikningur fiskeldis sem atvinnugreinar væri nokkuð sterkur. Í árslok í fyrra var eigið fé geirans 36 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 52 prósent. Skuldir allra fiskeldisfyrirtækjanna sem eru með starfsemi á Íslandi voru á sama tíma 34 milljarðar króna.