Vannýtt framlög hins opinbera til fjárfestingar draga úr áhrifum opinberra fjárfestinga á hagkerfið, en undanfarin ár hefur hlutfall slíkra framlaga numið allt að 30 prósentum. Þetta kemur fram í hagsjá hagfræðideildar Landsbankans sem birtist í gær.
Í hagsjánni er farið yfir þróun síðustu missera í opinberum fjárfestingum, sem drógust talsvert saman í fyrra þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi sett af stað sérstakt fjárfestingarátak sem mótvægisaðgerð gegn efnahagsáhrifum heimsfaraldursins.
Í ár spá helstu greiningaraðilar hins vegar mikilli hlutfallsaukningu í fjárfestingum miðað við síðasta ár. Þar spáir Hagstofan 17,7 prósenta aukningu, en Seðlabankinn býst við allt að 32 prósenta aukningu.
Hins vegar er spáð aukning ekki jafnmikil ef hún er borin saman við tölur síðustu ára. Líkt og sjá má á mynd hér að neðan yrði raunvirði opinberrar fjárfestingar í ár litlu meiri en virði hennar árið 2018 ef spár Seðlabankans, sem eru bjartsýnastar allra helstu greiningaraðila, yrðu að veruleika.
Á fyrstu mánuðum ársins jókst virði fjárfestingar hins opinbera um 18,7 prósent ef gert er ráð fyrir verðbólgu. Samkvæmt Landsbankanum, sem gerir ráð fyrir rúmlega fimmtungsaukningu í virði opinberrar fjárfestingar, eru tölurnar á réttri leið.
Aftur á móti bendir bankinn á tvo þætti sem gætu flækt umræðuna. Annars vegar sé skilgreining ríkisstjórnarinnar á fjárfestingu hins opinbera víðari en sú sem hagskýrslur nota, þar sem þær telja ekki viðhald innviða með sem opinberar fjárfestingar.
Einnig bætti bankinn við að undanfarin ár hafi fjárveitingar til fjárfestinga ríkissjóðs verið mun meiri en raunfjárfestingar ársins. Þannig hafi ónýttar fjárheimildir til fjárfestinga verið um 25-30 prósent af samþykktum framlögum síðustu ár. Að mati bankans dregur slík vannýting úr áhrifum fjárfestingar sem hagstjórnarviðbragðs.
Hins vegar bætir hagdeild Landsbankans við að umbóta sé að vænta í þeim efnum, þar sem unnið sé að lagafrumvarpi um fjárfestingar, sem feli í sér endurskoðun á lögum um skipan opinberra framkvæmda. Með því myndi sérstök framkvæmda- og fjárfestingaáætlun fylgja fjármálaáætlun hins opinbera, en Landsbankinn telur það eiga að geta skapað meiri festu í þessum málum í framtíðinni.