Stjórnarflokkarnir þrír mælast samtals með 50,5 prósent fylgi samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Gallup. Það er tæpum fjórum prósentustigum minna fylgi en þeir fengu í kosningunum í september þegar 54,3 prósent atkvæða fóru til Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks eða Vinstri grænna.
Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn hafa bæði tapað fylgi frá kosningum en Framsóknarflokkurinn hefur bætt við sig. Nú segjast 21,9 prósent landsmanna styðja Sjálfstæðisflokkinn sem er 2,5 prósentustigum minna fylgi en hann fékk í september og 0,5 prósentustigi minna en fylgið sem flokkurinn mældist með í janúar. Vinstri græn dala lítillega á milli mánaða og mælast nú með 10,5 prósent, sem er 2,1 prósentustigi undir kjörfylgi. Framsókn mælist hins vegar með 18,1 prósent fylgi, sem er mesta fylgi sem flokkurinn hefur mælst með í könnunum Gallup síðan í desember 2014, þegar hann sat í ríkisstjórn undir forsæti þáverandi formanns, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Framsóknarflokkurinn mælist með 0,8 prósentustigum meira fylgi en hann fékk í síðustu kosningum og er nú einungis 3,8 prósentustigum minni en Sjálfstæðisflokkurinn.
Samfylkingin mælist á svipuðu slóðum nú og í janúar með 11,1 prósent fylgi, sem er 1,2 prósentustigum yfir kjörfylgi. Þá segjast alls 9,7 prósent að þeir ætli að kjósa Viðreisn sem er 1,4 prósentustigum meira en flokkurinn fékk upp úr kjörkössunum í fyrrahaust.
Hinir tveir stjórnarandstöðuflokkarnir, Flokkur Fólksins og Miðflokkurinn, hafa báðir dalað síðast kosið var síðast. Flokkur fólksins mælist nú með 7,5 prósent fylgi, 1,4 prósentustigi undir kjörfylgi, og Miðflokkurinn nýtur stuðnings 3,9 prósent landsmanna, sem er 1,6 prósentustigum minna en í síðustu kosningum.
Níundi flokkurinn sem mælist með fylgi er Sósíalistaflokkur Íslands, en 3,9 prósent landsmanna segjast styðja hann.
Stuðningur við ríkisstjórnina dalar milli mánaða og mælist nú 58 prósent. Niðurstöður um fylgi flokka á landsvísu eru úr netkönnun sem Gallup gerði daganna 1. til 28. febrúar 2022. Heildarúrtaksstærð var 9.672 og þátttökuhlutfall var 49,7 prósent. Vikmörk við fylgi flokkanna eru 0,6 til 1,3 prósent.