Samkvæmt nýrri könnun Maskínu á fylgi flokka munar einungis einu prósentustigi á fylgi Sjálfstæðisflokks annars vegar og Framsóknarflokks hins vegar. Framsókn mælist með 18,3 prósent fylgi, sem er einu prósentustigi yfir kjörfylgi flokksins, en Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 19,3 prósent fylgi, sem er 5,1 prósentustigi undir því sem hann fékk í kosningunum í september í fyrra. Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn líka mælst með undir 20 prósent fylgi í nýlegum könnunum allra þriggja könnunarfyrirtækjanna sem mæla fylgi stjórnmálaflokka reglulega: Gallup, Prósents og Maskínu.
Sjálfstæðisflokkurinn er í mestum vandræðum við að ná til ungs fólks, en fylgi hans hjá 18 til 39 ára er 14,3 til 14,7 prósent. Hjá yngsta aldurshópnum, 18 til 29 ára, er flokkurinn fjórði stærstur. Framsókn, Píratar og Samfylkingin njóta meiri stuðnings þar en hann.
Framsókn vinsæl hjá ungu fólki
Raunar er Framsókn að sækja stærstan hluta fylgis síns til ungs fólks. Hann nýtur stuðnings yfir 20 prósent kjósenda hjá 18 til 39 ára.
Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna þriggja mælist 46,2 prósent en var 54,3 prósent í síðustu kosningum. Þeir hafa því tapað 8,1 prósentustigi á kjörtímabilinu og meirihluti þeirra yrði í hættu ef kosið yrði í dag, og niðurstaðan væri í takt við könnun Maskínu.
Þrír andstöðuflokkar bætt við sig tíu prósentustigum
Þrír stjórnarandstöðuflokkar hafa verið að mælast með aukið fylgi í öllum könnunum undanfarna mánuði: Píratar, Samfylking og Viðreisn. Sömu sögu er að segja í könnun Maskínu. Þar mælist fylgi Pírata 14,6 prósent, Samfylkingar 13,4 prósent og Viðreisnar 8,8 prósent. Allir flokkarnir mælast yfir kjörfylgi. Píratar myndu bæta mestu við sig frá síðustu kosningum, eða sex prósentustigum. Enginn einn flokkur mælist með meira viðbótarfylgi. Samfylkingin myndi bæta við sig 3,5 prósentustigum frá síðustu kosningum, en formannsskipti eru framundan hjá þeim flokki í haust. Viðreisn mælist nú hálfu prósentustigi yfir kjörfylgi. Sameiginlegt fylgi þessara þriggja flokka hefur því aukist um tíu prósentustig frá því í september 2021 og mælist nú 36,8 prósent.
Tveir flokkar í stjórnarandstöðu tapa fylgi frá síðustu kosningum, Flokkur fólksins sem mælist með 6,3 prósent fylgi og Miðflokkurinn með 4,7 prósent fylgi.
Könnunin var gerð daganna 1. til 23. júní og svarendur voru 1.658 talsins.