Könnun MMR, sem birt var í gær, hefur nokkuð afgerandi áhrif á kosningaspá Kjarnans og Baldurs Héðinssonar, doktors í stærðfræði. Þó fylgisbreytingarnar séu almennt ekki miklar (innan við eitt prósentustig), tapar Sjálfstæðisflokkurinn einum fulltrúa til Framsóknar og flugvallavina. Samkvæmt spánni er Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir oddviti B-listans síðasti frambjóðandinn sem nær kjöri. Þetta er í fyrsta sinn sem listinn mælist með nægjanlegt fylgi til að fá mann kjörinn. Þegar kosningaspáin var gerð í gærkvöldi voru aðeins þrír dagar til kosninga.
Þróun á fylgi framboðanna
Kosningaspá keyrð á tímabilinu 26. febrúar til 28. maí 2014.
[visualizer id="4616"]
Samfylkingin er enn stærsta framboðið í borginni og hefur aðeins einu sinni áður mælst með meira fylgi síðan fyrsta kosningaspáin var birt. Það var fyrir rúmri viku síðan eftir að könnun Félagsvísindastofnunnar 20. maí sýndi miklar fylgissveiflur meðal stóru framboðanna. Samfylkingin heldur fimm borgarfulltrúum og Björt framtíð er enn næst stærsta framboðið, með fjóra kjörna fulltrúa. Þess ber þó að geta að munurinn á fylgi Sjálfstæðisflokks og Bjartar framtíðar er langt innan vikmarka.
Skipting fulltrúa samkvæmt nýjustu spá
[visualizer id="4611"]
Fulltrúi Framsóknar og flugvallavina er valtur í fimmtánda sætinu því næsti fulltrúi inn er Áslaug Friðriksdóttir frá D-lista og þar á eftir sjötti fulltrúi á lista Samfylkingarinnar.
Athygli vekur að Píratar tapa fylgi í sjötta skiptið í röð. Oddviti Þ-listans, Halldór Auðar Svansson, er þó örugglega kjörinn sem áttundi fulltrúinn í röðinni. Píratar silgdu lygnan sjó í allt vor með um 10 prósent fylgi í kosningaspánni þar til halla fór undan fæti 20. maí.
Sóley Tómasdóttir, oddviti Vinstri grænna, er jafnframt nokkuð örugglega kjörin. Hún er, samkvæmt nýjustu spá, tíundi fulltrúi inn í borgarstjórn.
Nýjasta kosningaspáin byggir á síðustu fjórum könnunum sem birtar hafa verið. Það eru:
- Könnun Félagsvísindastofnunnar sem gerð var dagana 12. til 15. maí.
- Könnun Capacent/Gallup sem gerð var dagana 7. til 21. maí.
- Könnun MMR sem gerð var dagana 20. til 23. maí.
- Könnun MMR sem gerð var dagana 26. til 28. maí.
Kosningaspáin verður uppfærð um leið og niðurstöður nýrra kannana eru birtar allt fram að kosningum.