Rúmir þrettán mánuðir eru liðnir frá síðustu kosningum. Samkvæmt nýjustu könnun Gallup hafa ríkisstjórnarflokkarnir þrír tapað alls 7,7 prósentustigum af fylgi. Mest hafa Vinstri græn, flokkur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, tapað eða 4,2 prósentustigum. Fylgi þess flokks mælist nú 8,4 prósent sem gerir hann, ásamt Viðreisn, að fimmta til sjötta stærsta flokknum á þingi.
Framsóknarflokkurinn, sem bætti miklu við sig í kosningunum í september í fyrra, hefur einnig fallið nokkuð skarpt það sem af er kjörtímabilinu. Flokkurinn fékk 17,3 prósent atkvæða í kosningunum í fyrrahaust og bætti þá við sig 6,6 prósentustigum milli kosninga. Enginn annar flokkur bætti við sig meiru en 1,9 prósentustigi, ef frá er talinn Sósíalistaflokkur Íslands sem var að bjóða fram í fyrsta sinn og fékk 4,1 prósent atkvæða. Gott gengi flokksins hélt áfram í sveitarstjórnarkosningunum í vor sem skilaði honum meðal annars inn í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.
Eini stjórnarflokkurinn sem hefur engu fylgi tapað á kjörtímabilinu er Sjálfstæðisflokkurinn, sem mælist með nákvæmlega sama fylgi og hann fékk upp úr kjörkössunum fyrir þrettán mánuðum, eða 24,4 prósent. Það er þó næst minnsta fylgi sem flokkurinn hefur fengið frá upphafi í þingkosningunum og í þeim formannsslag Bjarna Benediktssonar og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar sem nú stendur yfir í aðdraganda landsfundar Sjálfstæðisflokks, sem fer fram um næstu helgi, hefur fylgið verið gert að helsta ásteytingarsteininum. Guðlaugur Þór segir það allt of lítið og beri þess merki að flokkurinn nái ekki lengur til verkastétta sem kusu hann einu sinni. Bjarni segir að horfa þurfi til þess að flokkurinn sé enn sá stærsti í afar breyttu pólitísku landslagi, komist þrátt fyrir allt alltaf í ríkisstjórn og tryggi sér þannig áhrif.
Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna mælist 46,6 prósent og samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup fyrir októbermánuð myndi það, í ljósi þess að flokkarnir á þingi yrðu níu ef kosið yrði í dag, einungis skila þeim 30 þingmönnum, eða sex færri en hún hefur nú. Alls 32 þarf til að mynda meirihluta og því mælist ríkisstjórnin fallin eins og er.
Samfylkingin tekið til sín þorra þess sem stjórnin hefur tapað
Sá flokkur sem hefur bætt langmestu fylgi við sig á kjörtímabilinu samkvæmt könnunum er Samfylkingin, en hún kaus Kristrúnu Frostadóttur sem nýjan formann um síðustu helgi og skipti raunar út allri forystu sinni á landsfundi. Alls mælist fylgi Samfylkingarinnar nú 16,6 prósent, sem er 6,7 prósentustigum meira en flokkurinn fékk í kosningunum í september. Fylgið hefur ekki mælst hærra síðan í byrjun árs 2021 og flokkurinn hefur nú mælst sá næst stærsti í landinu í þrjá mánuði í röð. Þessi fylgisaukning, og það að níu flokkar næðu inn, myndi skila Samfylkingunni fimm fleiri þingmönnum en hún er með í dag, eða ellefu talsins.
Píratar hafa einnig bætt umtalsverðu við sig, eða 4,3 prósentustigum, og mælast með 12,9 prósent fylgi. Þingmönnum flokksins myndi fjölga úr sex í átta yrði þetta niðurstaða kosninga.
Viðreisn stendur nánast í stað frá kosningunum, mælist með 8,4 prósent sem er 0,1 prósentustigi meira en flokkurinn fékk í fyrrahaust. Þingmannafjöldinn myndi verða óbreyttur, eða fimm.
Flokkur fólksins tapað næst mest allra
Tveir flokkar í stjórnarandstöðu hafa verið að tapa fylgi. Þar ber fyrst að nefna Flokk fólksins, sem hefur gengið í gegnum allskyns innanmein það sem af er kjörtímabili. Flokkur Ingu Sæland fékk 8,9 prósent atkvæða í kosningunum í fyrra en mælist nú einungis með 5,3 prósent stuðning. Einungis Vinstri græn hafa tapað meira fylgi það sem af er kjörtímabili.
Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar mælist nú með slétt fimm prósent fylgi, sem er 0,5 prósentustigum undir kjörfylgi. Það myndi þó mögulega skila honum fleiri þingmönnum en þingflokkurinn telur í dag, en auk formannsins er einungis Bergþór Ólason þar að finna. Það skýrist þó af því að Birgir Þórarinsson, sem kjörinn var á þing fyrir Miðflokkinn í fyrrahaust, ákvað að skipta yfir í Sjálfstæðisflokkinn nokkrum vikum eftir kosningar.
Könnunin var gerð daganna 3. til 31. október 2022. Heildarúrtaksstærð var 8.267 og svarhlutfallið 49,9 prósent. Vikmörk á fylgi flokka eru 0,8 til 1,5 prósentustig.