Framsóknarflokkurinn mælist með 15,4 prósent fylgi í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup og hefur ekki mælst með svo lítið fylgi í könnunum fyrirtækisins síðan fyrir kosningarnar í fyrrahaust. Flokkurinn tapar 2,1 prósentustigi milli mánaða, meira en nokkur annar, og er sem stendur 1,9 prósentustigi undir kjörfylgi.
Sjálfstæðisflokkurinn tapar einnig lítillega milli mánaða og mælist með 22,1 prósent fylgi. Það er 2,3 prósentustigum minna en flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Minnsti stjórnarflokkurinn, Vinstri græn, hressast aðeins milli mánaða og mælast með 8,6 prósent stuðning. Flokkurinn mældist með 7,2 prósent í júní sem var lægsta fylgi sem hann hafði nokkru sinni mælst með í könnun Gallup. Vinstri græn eru enn töluvert frá kjörfylgi, sem var 12,6 prósent. Enginn flokkur á þingi hefur tapað jafn miklu fylgi það sem af er kjörtímabili.
RÚV greindi frá niðurstöðum könnunarinnar fyrr í kvöld.
Þrír stærstu andstöðuflokkarnir bætt við sig fylgi
Þrír flokkar á þingi hafa bætt við sig fylgi það sem af er kjörtímabili. Píratar tapa aðeins milli mánaða en mælast samt með 15 prósent fylgi, sem er 6,4 prósentustigum meira en í síðustu kosningum.
Samfylkingin stendur í stað frá því í júní með 13,7 prósent fylgi, eða 3,8 prósentustigum meira en flokkurinn fékk í fyrrahaust. Viðreisn bætir vel við sig milli mánaða og nýtur nú stuðnings 8,6 prósent kjósenda, sem er 0,3 prósentustigi yfir kjörfylgi.
Samanlagt mælist fylgi þessara þriggja flokka 37,3 prósent, eða 10,5 prósentustigum meira en þeir fengu síðast þegar var kosið. Í ljósi þess að fylgisaukning Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar er meiri en fylgistap stjórnarflokkanna, sem er 8,2 prósent, er ljóst að þeir hafa sótt fylgi til annarra stjórnarandstöðuflokka að auki.
Sósíalistar stærri en Miðflokkur
Flokkur fólksins mælist nú með 6,6 prósent fylgi, sem er svipað og fyrir mánuði en töluvert undir þeim 8,8 prósentustigum sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Miðflokkurinn hefur ekki mælst með yfir fimm prósent fylgi það sem af er kjörtímabili og það varð engin breyting þar á í síðasta mánuði. Þá sögðust alls 4,4 prósent styðja flokkinn sem er einu prósentustigi undir kjörfylgi.
Sósíalistaflokkur Íslands bauð fram til þings í fyrsta sinn haustið 2021, en náði ekki inn. Hann fékk 4,1 prósent atkvæða. Fram að júlímánuði hafði flokkurinn einungis einu sinni mælst með meira en fimm prósent fylgi en hann bætir ágætlega við sig nú og er með 5,3 prósent.
Rétt tæpur helmingur aðspurðra, eða 49 prósent, sögðust styðja ríkisstjórnina. Það er sama hlutfall og í júní.
Gallup framkvæmdi könnunina dagana 1. júlí til 1. ágúst. Könnunin var netkönnun og með handahófskenndu úrtaki úr Viðhorfahópi Gallup upp á 9.705 manns. Þátttökuhlutfall var 49 prósent og vikmörk á fylgi einstakra flokka eru á bilinu 0,6-1,3 prósent.