Algjörlega ný forysta hjá Framsóknarflokknum, sem komst til valda eftir hrunið á Íslandi, leiddi til þess að flokkurinn færðist hratt í átt að popúlisma. Óhjákvæmilegt er að flokka Framsókn að minnsta kosti með mýkri útgáfum popúlistaflokka í Evrópu. Þetta segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, í nýrri fræðigrein sinni „Populism in Iceland: Has the Progressive Party turned populist?“ sem birtist í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla í dag.
Í greininni kemur fram að ekki er samhljómur um það í fræðunum hver skilgreiningin á popúlisma er, en Eiríkur tekur fram tíu einkenni sem popúlískir stjórnmálaflokkar í Evrópu hafa nú til dags.
Flokkarnir eru á móti innflytjendum og elítum. Þeir eru fullir efasemda um Evrópusamrunann, þar eru siðapredikarar sem aðhyllast verndunarstefnu í efnahagsmálum, tala fyrir lögum og reglu og eru á móti fjölmenningarþróun í Evrópu. Þeir vilji heldur höfða til tilfinninga en raka, geri greinarmun á „okkur“ og „hinum“ og treysti á sterka leiðtoga sem séu gæddir persónutöfrum og tali í einföldum lausnum á flóknum málum sem íþyngi almenningi.
Eiríkur tiltekur í grein sinni dæmi um öll þessi tíu einkenni innan Framsóknarflokksins á undanförnum árum. Þrátt fyrir það segir hann að flokkurinn sé ekki að öllu leyti populískur og í raun meiri þjóðernisflokkur en popúlistaflokkur. Það sé þó óhjákvæmilegt að flokka Framsóknarflokkinn að minnsta kosti með mýkri útgáfum af popúlistaflokkum í Evrópu. Hann sé líklega líkastur norska Framsóknarflokknum í þessum efnum.