Framsóknarflokkurinn mælist nú með 12,7 prósent fylgi og hefur ekki mælst stærri í rúm tvö ár í könnunum MMR. Hann hefur enn fremur einungis einu sinni mælst með meira fylgi á yfirstandandi kjörtímabili, í febrúar 2019 skömmu eftir Klaustursmálið svokallaða þegar fylgi Framsóknarflokksins mældist 13,5 prósent. Frá því í byrjun desember hefur flokkurinn aukið fylgi sitt um 67 prósent, úr 7,6 prósentustigum í 12,7 prósent. Fylgið jókst um 1,3 prósentustig milli mánaða.
Hinir tveir stjórnarflokkarnir dala á milli mánaða í könnun MMR. Sjálfstæðisflokkurinn mælist nú með 21 prósent fylgi og Vinstri græn með 11,7 prósent fylgi. Fyrrnefndi flokkurinn hefur tapað 6,1 prósentustigi í könnunum MMR frá því í byrjun desember 2020, sem þýðir að fylgi hans hefur dregist saman um 22,5 prósent. Síðarnefndi flokkurinn tapar 1,8 prósentustigum milli mánaða og yrði fjórði stærsti flokkurinn á þingi ef niðurstaða nýjustu könnunar MMR kæmi upp úr kjörkössunum. Vinstri græn voru næst stærsti flokkur landsins eftir síðustu þingkosningar.
Framsóknarflokkurinn er enn fremur eini stjórnarflokkurinn sem mælist yfir kjörfylgi en samanlagt fylgi stjórnarflokkanna þriggja mælist nú 45,4 prósent. Þeir fengu alls 52,8 prósent atkvæða haustið 2017.
Miðflokkurinn hressist milli mánaða og nálgast kjörfylgi sitt. Hann mælist nú með 9,3 prósent stuðning. Flokkur fólksins bætir líka við sig fylgi frá því í febrúar og mælist nú með 5,1 prósent stuðning. Sósíalistaflokkurinn rekur svo lestina af þeim níu flokkum sem mælast í könnunum MMR þessa stundina með 3,8 prósent fylgi.
Stuðningur við ríkisstjórnina dalar milli mánaða og mælist nú 53,7 prósent. Könnunin var framkvæmd 5. - 10. mars 2021 og var heildarfjöldi svarenda 951 einstaklingur, 18 ára og eldri.
Næst verður kosið til þings 25. september næstkomandi.