Rúm 43 prósent landsmanna ætla að borða Hamborgarhrygg á aðfangadagskvöld samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Hamborgarhryggur, sem er hryggur úr svíni, er því langvinsælasti jólamatur Íslendinga líkt og verið hefur síðustu ár. Lambakjötið, þar með talið hangikjöt, kemur þar á eftir en þó ætla aðeins um 15 prósent landsmanna að neyta þess. Fuglakjöt er einnig nokkuð vinsælt. Kalkúnn verður að öllum líkindum á borðum tæplega 11 prósent landsmanna á aðfangadagskvöld og 6,4 prósent ætla að borða rjúpur.
Þessar niðurstöður koma ekki sérstaklega á óvart. Það sem hins vegar má segja að veki einna mesta athygli er að þessi jólin ætla 4,4 prósent landsmanna að borða grænmetisfæði, jafnmargir og hyggjast borða hreindýrakjöt.
Nautakjöt og grænmetisfæði sækja á
Hamborgarhryggur nýtur yfirgnæfandi vinsælda miðað við þetta en þó hafa þær dvínað nokkuð síðustu ár. Þannig sögðu um 53 prósent þátttakenda í könnun árið 2010, eða fyrir rúmum tveimur áratugum, að hamborgarhryggur yrði fyrir valinu á aðfangadagskvöld. Vinsældirnar hafa því dalað um 10 prósent.
Ekki er sérstakur munur á vinsældum annarra kjöttegunda síðustu tvo áratugi en þó má sjá að lambakjöt annað en hangikjöt hefur sótt nokkuð í sig veðrið þótt munurinn frá árinu 2010 (8 prósent) og 2022 (11 prósent) sé vissulega ekki mikill. Sömu sögu er að segja um nautakjöt en 6 prósent landsmanna ætla að borða slíkt kjöt á aðfangadagskvöld samanborið við 2 prósent árið 2010.
Hástökkvarinn hlýtur að vera grænmetisfæðið. Vissulega er fjöldinn sem það hyggst borða í aðalrétt á aðfangadagskvöld enn ekki sérstaklega mikill en hann hefur þó farið úr 1 prósenti árið 2010 í rúm 4 prósent í ár.
Og þegar rýnt er nánar í hverjir það eru sé ætla að borða grænmetismat kemur áhugaverð mynd í ljós.
Konur eru líklegri til að velja grænmetisfæði á diskinn sinn á aðfangadagskvöld. Um 7 prósent þeirra kjósa slíkt en aðeins 2 prósent karla. Þegar rýnt er í aldur þátttakenda í könnun Maskínu kemur svo enn ein skýr birtingarmynd fram því heil tíu prósent fólks yngra en 30 ára ætlar að borða grænmetismat. Flestir sem velja grænmetisfæðið búa á höfuðborgarsvæðinu en fæstir (í raun enginn sem svaraði könnuninni) á Vesturlandi, Vestfjörðum og Austurlandi.
Tekjulægra fólk er líklegra til að velja grænmetismat sem skýrist sjálfsagt af því að þetta er yngra fólk, margt enn í námi.
Sósíalistar velja grænmetisrétti
Að síðustu er eftirtektarverð að skoða val á jólamat og stjórnmálaskoðanir. Þátttakendur voru spurðir hvaða flokk þeir myndu kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag. Kjósendur Flokks fólksins eru ekkert að flækja hlutina. Langflestir þeirra eða 63 prósent velja svínakjötið. Og enginn ætlar að borða grænmetisrétt.
Framsóknarmenn vilja einnig sitt svín eða lamb og enginn þeirra – 0 prósent – ætla að snæða grænmetisfæði á aðfangadagskvöld. Svipaða sögu er að segja af kjósendum Miðflokksins en það kemur þó skemmtilega á óvart að 2 prósent þeirra kjósa grænmetismat.
12 prósent kjósenda Pírata ætla að fá sér grænmetisrétt en flestar grænmetisæturnar eru þó kjósendur Sósíalistaflokksins en 17 prósent þeirra munu innbyrða slíkan mat nú um jólin. Aðeins hamborgarhryggurinn er vinsælli í þessum hópi.
Allt þetta á við um aðfangadagsmáltíðina en allt önnur mynd birtist á vinsældalista jóladagsmatarins. Þar á hangikjötið skuldlaust vinninginn meðal kjötætanna því 63,7 prósent landsmanna ætla samkvæmt könnuninni að snæða slíkt. Grænmetisæturnar ætla að halda sínu striki því jafnmargar þeirra og reyndar ívið fleiri eða um 4,6 prósent ætla að borða grænmetisrétt á jóladag, rétt eins og á aðfangadag.
Um könnunina
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e.panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá á netinu. Svarendur eru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Svör voru vegin samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofunnar um kyn, aldur og búsetu, þannig að þau endurspegla þjóðina prýðilega, segja rannsakendur Maskínu. Könnunin fór fram frá 16. til 20. desember og voru svarendur 967 talsins.