Rafmyntagröftur skóp íslenska rafmyntaiðnaðinn og er enn stór hluti hans, en hins vegar ekki framtíðin, sagði Dominic Ward forstjóri Verne Global, sem rekur gagnaver í Reykjanesbæ, í viðtali við Kjarnann í upphafi mánaðar.
Ward sagði að gagnaver landsins hefðu í dag um 200 MW af uppsettu afli (e. data center capacity) til þess að selja viðskiptavinum sínum og að hann teldi að af þessum 200 MW væru einungis um 41 MW að fara í eitthvað annað en að grafa eftir rafmyntum.
Hann fullyrti við Kjarnann að nær öll starfsemi gagnavera á Ísland, annarra en Verne Global, fælist í rafmyntagreftri. Verne Global hefur þegar sagt upp öllum samningum sínum við Bitcoin-grafara og munu þeir síðustu renna út á næsta ári.
Um 750 GWst í rafmyntagröft í fyrra?
Mat forstjórans er þannig að tæp 80 prósent allrar orku sem gagnaverin á Íslandi noti fari í að grafa eftir rafmyntum.
Í fyrra nam samanlögð orkusala Landsvirkjunar, HS Orku og Orku náttúrunnar til gagnavera 970 gígavattstundum (GWst) samkvæmt upplýsingum frá Orkustofnun.
Má því áætla að um 750 GWst hafi farið í rafmyntagröft, ef mat forstjóra Verne Global er nærri lagi.
Það er meiri orka en stærsti orkusalinn, Landsvirkjun, seldi gagnaverum í fyrra, en sala Landsvirkjunar til gagnaveranna hefur aukist mikið á undanförnum árum, úr 146 GWst árið 2017 og upp í 739 GWst árið 2021. Sömuleiðis er það litlu minni orka en Sultartangavirkjun framleiddi árið 2020, samkvæmt tölum frá Orkustofnun.
Ekki hefur verið hægt að fá það opinberlega gefið upp frá orkusölum né Orkustofnun hve mikil orka fer í rafmyntagröft hérlendis.
Ward sagði í viðtalinu við Kjarnann, sem birtist í heild sinni síðasta sunnudag, að hann vildi gjarnan hafa það uppi á borðum nákvæmlega hversu mikið af orku færi í að grafa eftir rafmyntum á Íslandi á hverjum tíma.
Hann furðaði sig raunar á því að ekki væri hægt að fá þau svör frá opinberum aðilum – sem vissulega hefðu upplýsingar um hvert orkan væri að fara – ekki einu sinni þegar kjörnir fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi færu fram á fá þær upplýsingar.
Ekki bjartsýnn á framtíð Bitcoin
Í viðtalinu sagði Ward að rafmyntir hefðu búið til grundvöll fyrir starfsemi gagnavera á Íslandi, en að hann væri ekki bjartsýnn á framtíð fyrstu kynslóðar bálkakeðjutækni, sem rafmyntir á borð við Bitcoin hvíla á.
Það mat Ward er ekki síst sökum þess hve mikla orku þarf til þess að leysa reikniþrautirnar. Vegna þessa og af fleiri ástæðum reyndar líka, telur forstjórinn að áhættuprófíll Bitcoin sé gríðarlega hár.
Hann benti á að Kína hefði í fyrra bannað gröft eftir Bitcoin með einu pennastriki og það hefðu fleiri sömuleiðis gert eða verið með til skoðunar. „Allur Bitcoin-gröfturinn sem var í Kína og var slökkt á í desember færðist til Bandaríkjanna. Það er tímasprengja sem bíður þess að springa að einhver blaðamaður í Bandaríkjunum kveiki á þessu, fjalli um málið og það að það þurfti að kveikja á öllum gömlu kolaknúðu orkuverunum til að anna eftirspurninni. Við erum að tala um þúsundir megavatta sem eru að bætast við kolefnisfótspor Bandaríkjanna. Enginn er að fjalla um þetta, en það verður gert, gefum þessu sex mánuði,“ sagði Ward.
Hann telur þó að bálkakeðjutæknin sem slík sé til margra hluta nytsamleg og eigi eftir að verða mikilvæg til framtíðar – þá sérstaklega sú tækni sem byggi á svokölluðu proof of stake fremur en proof of work eins og fyrsta kynslóðin sem Bitcoin hvílir á. Sú tækni sé margfalt minna orkufrek og feli í sér tækifæri.