Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur fallist á beiðni Sambands íslenskra sveitarfélaga að fresta gildistöku ákvæða í barnaverndarlögum er varða barnaverndarþjónustu og umdæmisráð barnaverndar.
Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans. Þetta þýðir að barnaverndarnefndir verða ekki lagðar niður í lok maí eins og til stóð heldur í lok árs.
Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi á þriðjudaginn síðastliðnum frumvarp þar sem lagt er til að fresta framkvæmd breytinga á barnaverndarlögum þar til fullnægjandi undirbúningur hefur farið fram.
Gert var ráð fyrir að breytingarnar tækju gildi þann 28. maí næstkomandi en samkvæmt nýju frumvarpi má búast við því að undirbúningi barnaverndarþjónustu og umdæmisráða barnaverndar verði lokið 1. október 2022 og taki til starfa 1. janúar 2023, að því er fram kemur í svari ráðuneytisins.
Gefist sveitarfélögum þá ráðrúm til að ljúka við mönnun umdæmisráða og aðlaga verkferla áður en barnaverndarnefndir verða lagðar niður.
Umdæmisráð koma í staðinn
Forsagan er sú að í júní síðastliðnum samþykkti Alþingi breytingar á barnaverndarlögum er varða uppbyggingu barnaverndar innan sveitarfélaga. Breytingarnar felast í því að í stað barnaverndarnefnda sveitarfélaga starfræki sveitarfélög barnaverndarþjónustu og umdæmisráð barnaverndar.
Fram kemur í svari ráðuneytisins að frumvarpið hafi verið unnið í nánu samráði við sveitarfélögin og hafi fyrirkomulag barnaverndarþjónustu og umdæmisráða barnaverndar verið byggt á vinnu starfshóps um framtíðarskipulag barnaverndarþjónustu sveitarfélaga með fulltrúum þáverandi félagsmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka stjórnenda í velferðarþjónustu.
Töldu að nægur tími væri til stefnu
Lögin tóku gildi þann 1. janúar síðastliðinn en ákvæði þeirra er varða barnaverndarþjónustu og umdæmisráð barnaverndar átti að koma til framkvæmda þann 28. maí næstkomandi, eins og áður segir.
Í svari ráðuneytisins segir að við undirbúning málsins hafi verið byggt á því að tæplega ár væri nægur tími til innleiðingar breytinganna og að hentugt væri að tengja framkvæmd þeirra við sveitarstjórnarkosningar vorið 2022.
Mennta- og barnamálaráðherra barst aftur á móti erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem lagt er til að gildistöku ákvæða er varða barnaverndarþjónustu og umdæmisráð barnaverndar yrði frestað að lágmarki til 1. október 2022 og helst til 1. janúar 2023.
„Ráðuneytið tók þessa beiðni til skoðunar. Barnaverndarlög taka utan um þau börn sem eru í mestri þörf fyrir vernd og umönnun. Mikilvægt er að vandað sé til verka við innleiðingu breytinga á framkvæmd laganna og að tryggt sé að breytingar á skipulagi komi ekki niður á meðferð mála þessara barna.
Því féllst mennta- og barnamálaráðuneytið á beiðni sambandsins,“ segir í svari ráðuneytisins.
Ráðuneytið ekki haft tök á að veita æskilegan stuðning
Í bréfinu, sem Kjarninn hefur undir höndum og dagsett er þann 25. febrúar 2022, er málið rakið en þar segir að breytingarnar feli í sér stóraukna samvinnu sveitarfélaga á sviði barnaverndar þar sem miðað sé við að í umdæmi hverrar barnaverndarþjónustu og umdæmisráðs barnaverndar skuli vera í það minnsta 6.000 íbúar en til samanburðar hafi í fyrra íbúamark verið 1.500 íbúar. Að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sé hægt að fá undanþágu frá íbúalágmarki varðandi barnaverndarþjónustu en engar slíkar undanþágur séu í boði fyrir umdæmisráð barnaverndar.
„Þó að almennt sé sátt um breytingarnar og þær taldar til þess fallnar að styrkja barnavernd þá er innleiðing svo umfangsmikilla breytinga flókin og tímafrek og hefur af ýmsum ástæðum gengið hægar en vonir stóðu til í upphafi. Kosningar til Alþingis, breytingar á skipan ráðuneyta með umfangsmiklum breytingar á málefnum barna í Stjórnarráðinu ásamt mikilli áherslu á innleiðingu nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021, með tilheyrandi breytingum á þeim stofnunum sem að verkefninu koma, hefur gert það að verkum að ráðuneytið hefur ekki haft tök á að veita þann stuðning við innleiðinguna sem æskilegt hefði verið,“ segir í bréfinu.
Samvinna margra sveitarfélaga kallar á lengri undirbúning
Þá er útskýrt að COVID-19 hafi haft áhrif á nær öll önnur verkefni bæði ríkis og sveitarfélaga ásamt því að sameiningar sveitarfélaga og komandi sveitarstjórnarkosningar geri það að verkum að erfitt sé að vinna að svo umfangsmiklum breytingum á stjórnsýslu sveitarfélaga í barnaverndarmálum á þeim takmarkaða tíma sem til umráða er.
„Þá kom einnig í ljós þegar umfang mála hjá umdæmisráðum barnaverndar var skoðað að líklega er skynsamlegast að það verði ekki nema 2-3 umdæmisráð á landinu öllu. Eðli málsins samkvæmt krefst það samvinnu fjölmargra sveitarfélaga um allt land sem kallar á lengri undirbúning og mikla samvinnu,“ segir í bréfinu.
Staðan var rædd á fundi fulltrúa sambandsins og ráðuneytisins 16. febrúar síðastliðinn. Á þeim fundi greindu fulltrúar sambandsins frá þeirri vinnu sem sérfræðingar sambandsins höfðu unnið í samstarfi við sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins.
„Á fundinum kom fram mikill samhljómur um mikilvægi þess að stjórnsýsla barnaverndar í landinu gangi snurðulaust fyrir sig. Til þess að markmið lagabreytinga gangi eftir þarf að veita meira svigrúm til innleiðingar en gert var ráð fyrir við samþykkt laganna. Af þeim sökum er lagt til að gildistöku breytinganna verði frestað að lágmarki til 1. október 2022 og helst til næstu áramóta. Samhliða er gert ráð fyrir því að stofnaður verði innleiðingarhópur með fulltrúum mennta- og barnamálaráðuneytis, Barna- og fjölskyldustofu og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem markvisst mun vinna að innleiðingunni. Með því móti ætti að takast að ljúka innleiðingu stjórnsýslubreytinga í öllum sveitarfélögum.
Ef fallist verður á þetta erindi þarf jafnframt að gera ráð fyrir að starfandi barnaverndarnefndir haldi umboði sínu þar til breytingarnar taka gildi, án þess að skipa þurfi nýjar nefndir að loknum sveitarstjórnarkosningum til tiltölulega skamms tíma. Einnig þarf þó að gera ráð fyrir því að félagsmála/velferðarnefndir sem skipaðar verða eftir sveitarstjórnarkosningar og fara jafnframt með verkefni barnaverndarmála hafi heimildir til að sinna barnaverndarhlutverki sínu þar til lagabreytingin tekur gildi,“ segir í bréfinu.