Á laugardaginn sagði breska blaðið Times frá því að Boris Johnson hefði í upphafi árs 2018, er hann var utanríkisráðherra, ætlað sér að ráða Carrie Symonds, þáverandi hjákonu sína og núverandi eiginkonu, í vellaunað starf starfsmannastjóra ráðuneytisins.
Ráðgjafar hans og bandamenn í ráðuneytinu eru hins vegar sagðir hafa komið í veg þessar fyrirætlanir, þar sem þeir vissu af sambandi Johnson við Symonds og töldu það fela í sér gríðarlega áhættu fyrir hann að ráða ástkonu sína í starfið. Enda fer slíkt gegn öllum siðareglum.
Jafnframt töldu þeir að Symonds væri of óreynd í starfið, en á þessum tíma var hún fjölmiðlafulltrúi Íhaldsflokksins og hafði ekki reynslu af starfi af því tagi sem Johnson vildi ráða hana í.
Fréttir hurfu án útskýringa
Frétt um þetta mál birtist á blaðsíðu fimm í prentútgáfu Times á laugardag, að minnsta kosti í þeim eintökum sem fyrst komu úr prentsmiðjunni. Í seinni útgáfum af blaðinu var fréttina þó hvergi að finna – og hún var aldrei sett á netið. Annar fjölmiðill, Daily Mail, vísaði til fréttar Times á vefsíðu sinni, en þaðan hvarf hún sömuleiðis.
Engar útskýringar hafa enn verið settar fram um það af hverju miðlarnir tóku fréttirnar úr birtingu. Fulltrúar útgáfufélags Times, News UK, sem er hluti af fjölmiðlaveldi ástralska auðkýfingsins Roberts Murdoch, hafa hingað til neitað að tjá sig um ástæður þess að fréttin var tekin úr birtingu.
Blaðamaðurinn stendur 100 prósent við fréttina
Blaðamaðurinn Simon Walters, sem skrifaði frétt Times, fékk samkvæmt fréttinni staðfestingar úr nokkrum ólíkum áttum á að þessi saga væri sönn, en umrædd saga kom fyrst fram í nýlegri bók sem Michael Ashcroft, fyrrverandi varaformaður Íhaldsflokksins, skrifaði um eiginkonu forsætisráðherrans.
Athygli vakti yfir helgina að Walters, sem er reyndur blaðamaður, lýsti því yfir að hann stæði að fullu við fréttina þrátt fyrir að hún hefði verið látin hverfa. Það vakti svo ekki minni athygli þegar aðrir fjölmiðlar fóru á stjá og fengu söguna staðfesta frá heimildarmönnum sem þekkja til málsins, en það hafa Guardian, Independent og fleiri miðlar gert.
Guardian hefur það eftir heimildum sínum innan af ritstjórn Times að blaðamenn þar hafi verið undrandi á ákvörðuninni um að draga fréttina úr birtingu. Í frétt blaðsins segir að að fleiri en einn heimildarmaður þar telji að yfirstjórn blaðsins hafi haft einhver áhrif þar á þá ákvörðun, sem tekin var af aðstoðarritstjóra blaðsins.
Sumir breskir miðlar eru þegar byrjaðir að kalla þetta mál „Carriegate“ og er ekki ósennilegt að málið sé að vekja meiri athygli en raunin yrði annars sökum þess að fréttin var fjarlægð.
Forsætisráðuneytið beitti sér
Síðdegis í dag staðfesti skrifstofa forsætisráðherra við fjölmiðla að fulltrúar þar hafi komið athugasemdum á framfæri við Times vegna fréttarinnar. Samkvæmt frétt Independent kvartaði Johnson þó ekki sjálfur.
Talsmaður Carrie Johnson hefur sagt að fréttin sé „algjörlega ósönn“ og hefur forsætisráðuneytið vísað til þeirra svara, en þó hafa fjölmiðlafulltrúar þess ekki neitað efni fréttarinnar afdráttarlaust með formlegum hætti og segja það ekki á sinni könnu, þar sem Johnson hafi ekki verið orðinn forsætisráðherra á þessum tíma.