Jóhann K. Jóhannsson, fréttamaður á Stöð 2, hefur verið ráðinn í starf slökkviliðsstjóra Fjallabyggðar. Bæjarstjórn sveitarfélagsins samþykkti þetta á fundi sínum í gær. Jóhann hefur starfað við fjölmiðla frá árinu 2013 og sem fréttamaður á Stöð 2, Vísi og Bylgjunni frá árinu 2016.
Um mitt síðasta ár fékk hann leyfi frá störfum hjá fréttastofunni til þess að annast tímabundið upplýsingamiðlun fyrir almannavarnadeild ríkislögreglustjóra í tengslum við COVID-19 faraldurinn.
Því verkefni er nýlega lokið og hafði Jóhann snúið aftur til starfa hjá Stöð 2, Vísi og Bylgjunni.
Fram kemur í tilkynningu á vef sveitarfélagsins Fjallabyggðar að Jóhann hafi starfað sem slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður á árunum 2005 til 2013, áður en hann söðlaði um og hóf störf við fjölmiðla.
„Hann öðlaðist löggildingu sem sjúkraflutningamaður árið 2003 og tók EMT-I 2009. Þá öðlaðist hann löggildingu sem slökkviliðsmaður árið 2010. Lengst af starfaði hann hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og hjá Brunavörnum Árnessýslu. Jóhann var um tíma slökkviliðsstjóri Brunavarna Austur-Húnvetninga,“ segir á vef Fjallabyggðar.
Þar segir einnig að alls hafi þrjár umsóknir borist um starfið, en einn umsækjandi dregið umsókn sína til baka.