Bann verður lagt við olíuleit í efnahagslögsögu Íslands, verði nýtt stjórnarfrumvarp Guðlaus Þórs Þórðarsonar umhverfisráðherra að lögum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs var því heitið að ríkisstjórnin myndi ekki gefa út nein leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögunni. Í stjórnarsáttmálanum er einnig sett fram markmið um að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum í síðasta lagi árið 2040 og verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja.
Nú hefur umhverfisráðherra lagt fram frumvarp um breytingu á ýmsum lögum vegna banns við leit, rannsóknum og vinnslu kolvetnis í efnahagslögsögunni. Í fyrstu grein frumvarpsins er hugtakið kolvetni skýrt nánar, það merkir jarðolía, jarðgas eða annars konar kolvetni sem er til staðar í jarðlögum undir hafsbotni frá náttúrunnar hendi og nýtanlegt er í loftkenndu eða fljótandi formi.
Frumvarpið felur í sér breytingu á nokkrum lögum. Þau eru lög um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, lög um brunavarnir, lög um mannvirki og lög um varnir gegn mengun hafs og stranda. Verði frumvarpið samþykkt falla auk þess úr gildi lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, lög um skattlagningu á kolvetnisvinnslu og lög um stofnun hlutafélags um þátttöku íslenska ríkisins í kolvetnisstarfsemi.
Áform um lagasetninguna voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í lok janúar á þessu ári og frumvarpsdrög voru í kjölfarið kynnt í samráðsgátt um miðjan febrúar.
Engin virk leyfi fyrir leit eða vinnslu á olíu og gasi
Í kafla um mat á áhrifum frumvarpsins segir að lagasetningin hafi ekki áhrif á útgjöld hins opinbera og að það sé í samræmi við stefnu stjórnvalda um umhverfisvernd og sjálfbæra þróun. Þá hefur frumvarpið engin áhrif á leyfi til olíuleitar eða -vinnslu: „Engir aðilar hafa leyfi til að stunda leit, rannsóknir eða vinnslu kolvetnis í efnahagslögsögunni í dag.“
Í dag er það Orkustofnun (OS) sem gefur út leyfi til leitar að kolvetni annars vegar og leyfi til rannsókna og vinnslu á kolvetni hins vegar. Síðarnefndu leyfin eru sérleyfi sem eru veitt í kjölfar útboðs og fela í sér einkarétt leyfishafa til rannsókna og vinnslu. Orkustofnun hefur í heild gefið út þrjú slík leyfi en ekkert þeirra er enn í gildi, líkt og áður segir.
Í janúar árið 2013 voru tvö leyfi gefin út, Faroe Petreoleum Norge AS var rekstraraðili annars þeirra og Ithaca Petroleum ehf. rekstraraðili hins. Rúmu ári síðar, var þriðja leyfið gefið út og var kínverska ríkisolíufélagið CNOOC rekstraraðili leyfisins. Hverju sérleyfi fyrir sig var deilt á milli þriggja fyrirtækja en Petoro Iceland AS var leyfishafi með hlutþátttöku upp á 25 prósent í öllum leyfunum fyrir hönd norska ríkisins samkvæmt samningi milli Íslands og Noregs sem fjallar um landgrunnið á svæðinu milli Íslands og Jan Mayen.
Sérleyfi Faroe Petroleum var gefið eftir í janúar árið 2015 og sérleyfi Ithaca Petroleum var gefið eftir í janúar 2017. Líkt og áður segir var Petoro Iceland AS leyfishafi að fjórðungshluta beggja sérleyfanna en Íslenskt Kolvetni ehf. var hlutþátttöku upp á 7,5 prósent í leyfi Faroe Petroleum og 18,75 prósent í leyfi Ithaca Petroleum.
Í janúar árið 2018 gáfu CNOOC og Petoro Iceland eftir sinn hluta af þriðja leyfinu. Eykon Energy, þriðja fyrirtækið sem átti 15 prósenta aðild að sérleyfinu gerði það aftur á móti ekki. Orkustofnun mat það aftur á móti svo að Eykon Energy uppfyllti ekki skilyrði kolvetnislaga, „hvorki um tæknilegra né fjárhagslega getu til að takast eitt á við kröfur og skilmála leyfisins eða að vera rekstraraðili þess.“ Leyfið var því afturkallað.