Stjórnstöð ferðamála var sett á laggirnar á grundvelli samkomulags milli ríkistjórnarinnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka ferðaþjónustunnar í dag. Um leið skipaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, tíu fulltrúa í Stjórnstöðina. Fjórir ráðherrar eiga þar sæti, fjórir fulltrúar frá Samtökum ferðaþjonustunnar og tveir fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Stjórnstöð ferðamála hefur verið sett á laggirnar til þess að treysta stoðir ferðaþjónustuiðnaðar hér á landi, samkvæmt tillögum stýrihóps um framtíð ferðaþjónustunnar. Hluverk Stjórnstöðvarinnar verður að samhæfa aðgerðir og útfæra leiðir í samvinnu við opinberar stofnanir og hagsmunaaðila í ferðaþjónustu. Stjórnstöðinni er ætlað að starfa í fimm ár eða til ársloka 2020.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra er formaður Stjórnstöðvarinnar en auk hennar sitja í stjórninni Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Ólöf Nordal, innanríkisráðherra. Allir ráðherrarnir sitja í nefndinni því ráðuneyti þeirra sinna á einn eða annan hátt málefnum ferðaþjónustunnar.
Fulltrúar Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) eru fjórir. Það eru Grímur Sæmundsen, formaður SAF og forstjóri Bláa lónsins, Þórir Garðarson, varaformaður SAF og framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Gray Line Iceland, Helga Arnardóttir, framkvæmdastjóri SAF, og Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins og forstjóri Icelandair Group.
Kjarninn óskaði eftir skýringum á því hvers vegna Björgólfur hafi fengið fjórða sæti SAF í Stjórnstöðinni og fékk þær skýringar að eðlilegt sé að stærsta einkarekna ferðaþjónustufyrirtæki landsins fái atkvæði í slíkri stjórn, enda eru SAF samtök fyrirtækja í einkarekstri. Grímur Sæmundssen undirstrikaði einnig í samtali við Kjarnann að Björgólfur sæti í Stjórnstöðinni sem formaður Samtaka atvinnulífsins, jafnvel þó það hafi ekki verið skráð þannig í frétt atvinnuvegaráðuneytisins.
Samband íslenskra sveitarfélaga á tvö sæti í Stjórnstöð ferðamála. Þau skipa Halldór Halldórsson, formaður sambandsins og borgarfulltrúi í Reykjavík, og Sigrún Blöndal, forseti bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs og formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.
Halldór segir val fulltrúanna tveggja hafa verið með sambærilegum hætti og val fulltrúa í ráð, nefndir og stjórnir hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Í skriflegu svari til Kjarnans segir Halldór að leitast sé „við að vera með sem besta landfræðilega dekkun, jafnt kynjahlutfall og sem jafnast jafnvægi milli stjórnmálaflokka“. Halldór bendir einnig á að Sigrún sé eini fulltrúi landsbyggðarinnar í Stjórnstöð ferðamála.