Fyrrverandi rannsakandi á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins segir að gjaldeyri hafi verið stolið út úr Seðlabanka Íslands í stórum stíl í kjölfar þess að bankakerfið á Íslandi hrundi í fangið á almenningi og gjaldeyrishöft voru sett á haustið 2008.
Þetta segir rannsakandinn fyrrverandi, Jared Bibler, að hafi verið gert með uppsetningu skúffufyrirtækja úti í Evrópu sem gáfu út falska reikninga, til dæmis fyrir ráðgjafaþjónustu, til íslenskra fyrirtækja. Íslensku fyrirtækin framvísuðu þessum sömu reikningum til Seðlabankans og fengu að kaupa gjaldeyri á kjörum sem voru allt önnur en voru í boði fyrir utan Ísland. Síðan var féð flutt aftur til Íslands með verulegum gengishagnaði og gróðinn sem varð til í reynd niðurgreiddur af íslenskum almenningi.
Jared segir við Kjarnann að hann viti til þess að það hafi verið „smá teymi innan FME að skoða þetta árið 2009“ og eitthvað hafi verið sent til Seðlabankans vegna þessara mála, en hann viti ekki hvernig þessum málum lauk. Sjálfur lauk hann störfum hjá FME undir lok árs 2011.
Hann segir fyrrverandi bankastarfsmenn vera á meðal þeirra sem hafi nýtt sér þessa leið til þess að verða sér úti um gjaldeyri með verulegum afslætti hjá íslenska ríkinu á tímum hafta.
„Það virkaði þannig að Seðlabankinn borgaði alltaf reikninga ef þeir komu frá til dæmis Bretlandi í pundum eða frá Sviss í frönkum. Menn gátu bara stillt upp einhverju dummy fyrirtæki í Sviss og það gat selt ráðgjafaþjónustu til Íslands, fyrir kannski 100 þúsund franka. Svo er hægt að setja upp skúffufyrirtæki á Íslandi og fyrirtækið mitt í Sviss sendir fyrirtækinu þínu á Íslandi reikning fyrir 100 þúsund franka ráðgjafaþjónustu. Það voru gjaldeyrishöft á Íslandi og ekki hægt að kaupa franka nema maður væri með reikning. Þú gast farið með reikninginn í Seðlabankann og sagt: „Getið þið greitt þessa 100 þúsund franka út til Sviss?“
Seðlabankinn sagði bara: „Já, ekkert mál. Here you go. Hér eru 100 þúsund frankar frá þjóðinni út til Sviss.“ Og ég í Sviss fæ 100 þúsund franka frá þér, frá Íslandi. Núna er ég með 100 þúsund franka úti í Sviss og get núna keypt ríkisskuldabréf og sent aftur til þín. Og þú ert að tvöfalda peninginn þinn í krónum á Íslandi. Og þjóðin er að borga það, Seðlabankinn er að borga það. Þetta var mikið í gangi á Íslandi árið 2009,“ sagði Jared, sem ræddi um efni væntanlegrar bókar sinnar um bankahrunið og eftirmála þess í ítarlegu viðtali sem birtist í Kjarnanum á sunnudag.
Hann sagði frá því að þessi misnotkun á gjaldeyrisviðskiptunum við Seðlabankann hafi komið honum á óvart. „Þetta var svo erfitt á þessum tíma og maður varla átti fyrir mat. Ástandið var svo slæmt á Íslandi. Mér fannst ótrúlegt að Íslendingar væru að halda áfram að plata og svíkja,“ sagði Jared, sem leiddi annað af tveimur teyma sem fengust við rannsóknir á hrunmálunum innan FME um rúmlega tveggja ára skeið.
Ekki hans hlutverk að vera vinsæll
Af lestri bókar Jareds, sem ber heitið Iceland’s Secret og kemur út á vegum bresku útgáfunnar Harriman House í byrjun október, er ljóst að hann hefur miklar mætur á Ólafi Þór Haukssyni héraðssaksóknara, sem gegndi embætti sérstaks saksóknara frá 2009-2015.
Aðspurður segir hann þá tvo hafa átt gott vinnusamband, hvor í sinni stofnuninni, en í bókinni ræðir hann töluvert um gagnrýni sem Ólafur Þór sem sérstakur saksóknari fékk frá ákveðnum kreðsum á Íslandi.
„Það var ekki starfið hans að vera vinsæll,“ segir Jared og hlær, spurður út í gagnrýnina sem sett var fram á störf sérstaks saksóknara. Hann segist raunar hafa farið með þessa sömu möntru er hann starfaði hjá FME. „Ég sagði oft við sjálfan mig, það er ekki mitt hlutverk að vera vinsæll. Ef ég er vinsæll hjá þeim hjá Arion er ég ekki að vinna vinnuna mína.“
Hann segir sérstakan saksóknara alltaf hafa verið opinn fyrir nýjum upplýsingum, forvitinn og tilbúinn að læra nýja hluti í sínu starfi, sem hafi hjálpað Jared sjálfum í starfi sínu hjá FME.
„Ég vissi aldrei hversu mikið pláss ég var með til þess að gera eitthvað innan FME en þegar ég hitti Ólaf í fyrsta skipti þá vissi ég að þarna væri maður sem ég gæti talað við,“ segir Jared.
Hann nefnir að Ólafur Þór hafi ekki komið inn í starfið með mikla sérþekkingu á efnahagsbrotamálum eins og embætti hans var falið að rannsaka, en áður en Ólafur Þór var skipaður sérstakur saksóknari hafði hann verið sýslumaður á Akranesi og þar áður á Hólmavík.
„Hann var alltaf forvitinn og vildi læra og skilja. Hann var einn af þeim bestu sem ég hef starfað með á ævinni,“ segir Jared.