Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, er kominn til Berlínar þar sem hann fundar með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í dag. Tsipras sendi Merkel bréf þann 15. mars þar sem segir að Grikkir gætu þurft að velja á milli þess að greiða opinberum starfsmönnum laun eða greiða af lánum. Ef ekki fengist fjármagn fljótt gæti Grikkland orðið gjaldþrota í apríl. Samkvæmt núverandi samkomulagi eiga Grikkir að fá fjármagn í lok apríl, en Tsipras hefur varað við því að það verði einfaldlega of seint.
Merkel sagði fyrir helgi að Grikkir þyrftu að ráðast í miklar úrbætur og það mjög fljótt, til þess að fá aukið fjármagn. Því búast stjórnvöld í Þýskalandi við því að listi yfir aðgerðir stjórnvalda í Grikklandi verði settur fram á fundinum í dag.
Fjármálaráðherrar evruríkjanna, evruhópurinn svokallaði, þarf að samþykkja umbótatillögur Grikkja áður en nokkuð fleira gerist. Guardian segir frá því að verið sé að íhuga að flýta greiðslum til þeirra.