Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn bæta við sig smávægilegu fylgi milli mánaða samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup, en aukningin nær ekki heilu prósentustigi hjá hvorugum flokki. Báðir flokkarnir mælast undir kjörfylgi, en fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist 22,7 prósent á meðan að 11,4 prósent landsmanna segja að þeir myndu kjósa Vinstri græna ef kosið yrði í dag.
Framsóknarflokkurinn stendur í stað og mælist með 18 prósent stuðning. Frá þessu er greint á vef RÚV.
Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna þriggja mælist því 52,1 prósent en þeir fengu samtals 54,3 prósent í kosningunum í september 2021.
Flokkur fólksins er rétt undir kjörfylgi um þessar mundir með 8,2 prósent stuðning en flokkur Ingu Sæland fékk 8,9 prósent atkvæða í síðustu kosningum.
Minnsti flokkurinn á þingi, Miðflokkurinn sem á tvo þingmenn, mælist með 3,7 prósent fylgi. Öll stjórnarandstaðan nýtur því samanlagt 44,1 prósent stuðnings landsmanna.
Stuðningur við ríkisstjórnina mælist 61 prósent og eykst um þrjú prósentustig milli mánaða. Það sem af er kjörtímabili hefur stuðningur við ríkisstjórnina mest mælst 62,2 prósent, í fyrstu könnun Gallup sem gerð var eftir kosningar.
Könnunin var gerð á landsvísu dagana 1. til 31. mars 2022. Heildarúrtaksstærð var 10.941 og þátttökuhlutfall var 49,6 prósent. Vikmök við fylgi flokka eru 0,5 til 1,2 prósent.