Bankaeftirlitið í Huangshan-héraði í Kína hefur hafið opinbera rannsókn á Zhongkun Group samstæðunni, sem er í eigu Huang Nubo, fyrir meinta misnotkun á lánum til fyrirtækisins. Zhongkun Group, hefur verið sett á sérstakan svika-gátlista hjá kínverska bankaeftirlitinu, en málið snýst um misnotaðar lánveitingar upp á tæpa tólf milljarða króna. Dagblaðið China Business Journal greinir frá málinu.
Eins og kunnugt er hafði kínverski auðkýfingurinn áhuga á að kaupa Grímsstaði á Fjöllum og ráðast þar í tugmilljarða króna uppbyggingu á ferðaþjónustu. Íslensk stjórnvöld meinuðu Huang að kaupa jörðina, en þá stofnuðu sex sveitarfélög á Norður- og Austurlandi einkahlutafélag með það að markmiði að eignast jörðina að hluta og leigja til Huang í 40 ár. Af þessu hefur enn ekki orðið, en kínverski fjárfestirinn hefur í millitíðinni rennt hýru auga til uppbyggingar ferðaþjónustu á Svalbarða.
Stjórnarmenn og forstjóri Zhongkun Group yfirheyrðir
Kínverska dagblaðið greinir frá því að áform Huang Nubo um að kaupa land á Íslandi hafi vakið mikla athygli þar í landi. Yfirmenn Zhongkun Group hafa verið yfirheyrðir af kínverska fjármálaeftirlitinu, en þeirra á meðal er forstjóri fyrirtækisins Jiao Qing.
Samkvæmt gögnum bankaeftirlitsins, frá tímabilinu maí til júlí í fyrra, misnotaði félagið Jingyi Tourism Development, sem er dótturfyrirtæki Zhongkun Group, lán upp á tæpa fjórtán milljarða króna frá ICBC bankanum, með því að nota fjármagnið til annarra verkefna en lágu til grundvallar láninu. ICBC er iðnaðar- og verslunarbanki Kína.
Samhliða þessu hefur Zhongkun Group verið sett á sérstakan svika-gátlista hjá kínverskum yfirvöldum, en fyrirtækið og dótturfélög þess eru bendluð við sextán svikamál sem hljóða upp á hátt í tólf milljarða króna.
Áður en kínverska fjármálaeftirlitið hóf rannsókn á fyrirtækjum Huang Nubo, voru framkvæmdir Zhongkun Group á vatnsverndarsvæði Anhui-héraðs stöðvaðar af umhverfisverndaryfirvöldum, en ráðist var í framkvæmdirnar á svæðinu án nokkurra tilskilina leyfa.
Rannsókn kínverska bankaeftirlitsins
Jingyi Tourism Development, sem er ferðaþjónustufyrirtæki, hefur einkarétt á uppbyggingu og starfsemi ferðaþjónustu í þremur aldagömlum þorpum: í Hongcun, sem er á heimsminjaskrá, Nanping, sem hefur verið notað til sjónvarps- og kvikmyndagerðar, og Guanlu, sem er sagður vera dularfullur íverustaður kynjavera samkvæmt kínverskum fornsögum. Auk þessa rekur fyrirtækið Zhongcheng Villa, sem er þriggja stjörnu hótel.
Árið 2003 hóf fyrirtækið að fjárfesta í framkvæmdum á uppbyggingu háklassa ferðamannastaðar í Hongcun. Samkvæmt heimildum China Business Journal, fékk fyrirtækið hátt í tólf milljarða króna lán frá ICBC til framkvæmdanna árið 2012, en notaði stóran hluta lánsfjárhæðarinnar til að niðurgreiða önnur lán og kom háum fjárhæðum undan í formi falsaðra samninga við verktaka. Misnotkunin á lánveitingunum voru síðar staðfest af fjármálaeftirlitinu í Huangshan.
Lánamisnotkun Jingyi varð til þess að fjármálaeftirlitið í Huangshan beindi þeim tilmælum til ICBC bankans að herða útlánareglur sínar og krefjast endurgreiðslu frá Jingyi á fjárhæðum sem ekki fóru í tilgreind verkefni sem lágu til grundvallar lánveitingunum. Samhliða, þann 8. apríl síðastliðinn, yfirheyrði fjármálaeftirlitið fimm einstaklinga frá Zhongkun samstæðunni vegna málsins, þeirra á meðal forstjóra samstæðunnar. Auk þessa var fyrirtækið aðvarað fyrir ólöglega notkun á lánsfé frá ICBC.
Mynd tekin í Hongcun.
Vafasamar fjárfestingar og draugaverkefni
Í grein China Business Journal er látið að því liggja að fjárfestingaáætlunum Zhongkun Group sé verulega ábótavant, og ekki auðséð hvernig verkefnin samstæðunnar eigi að skila hagnaði. Heildarlán Jingyi 2013 námu til að mynda alls 700 milljónum Yuan (eða sem samsvarar tæpum fjórtán milljörðum króna) og því hefði fyrirtækið ekki náð nauðsynlegu hlutfalli milli veðsettra eigna á móti árstekjum. Grunur leikur á að heildareignir, tekjur og hagnaður hafi verið ýktar til að svíkja lán út úr bönkunum.
Í áðurnefndri grein er sagt frá heimsókn blaðamanns á risavaxinn ferðamannastað Jingyi við Quishu stöðuvatnið, þar sem búið var að byggja tugi bygginga, þar sem engan ferðamann var að sjá og allir vegir á svæðinu voru auðir. Í dag vinnur Zhongkun Group samstæðan að stórtækum framkvæmdum og uppbyggingu ferðamannastaða í Anhui, Peking, Yunnan og Xinjiang. Miklar og ónýttar byggingar eru á meðal verst varðveittu leyndarmála Kínverja.
Eins og áður segir er Zhongkun Group samstæðan sökuð um aðild að sextán fjársvikamálum fyrir allt að tólf milljarða króna.