Risavaxið auglýsingaskilti sem klámrisinn Pornhub setti upp á Times Square í New York í byrjun viku fékk ekki að standa upprétt lengi. Það var tekið niður á miðvikudagskvöldið. Samkvæmt frétt Guardian um málið er talið að það sé vegna þess að DoubleTree Hilton hótelið, sem auglýsingaskiltið, hékk framan á, hefði sett sig á móti því.
Skiltið sýndi mynd af tveimur höndum að mynda hjarta utan um vörumerki Pornhub með yfirfyrirsögninni „All you need is hand“, sem útleggst á íslensku sem „allt sem þú þarft er hönd“. Pornhub, sem er með höfuðstöðvar í Kanada, er ein stærsta klámveita internetsins.
Auglýsingaskiltið er afrakstur samkeppni sem Pornhub stóð fyrir í febrúar á þessu ári og miðaði að því að búa til auglýsingar fyrir fyrirtækið sem væri ekki klámfengnar en næðu samt að fanga kjarnastarfsemi þess. Sigurvegari keppninnar, tyrkneski auglýsingamaðurinn Nuri Galver var valinn úr hópi yfir þrjú þúsund þátttakenda. Tilgangur innreiðar Pornhub inn á hinn almenna auglýsingamarkað, en fyrirtækið hefur einvörðungu einbeitt sér að klámfengnum inter- og snjallsímaauglýsingum fram að þessu, var að gera vörumerkið sitt þekkt utan þess hóps sem þegar sækir í þjónustu Pornhub.
Til að fylgja skiltinu stóra, sem 16,5x14,6 metrar að stærð, var ráðist í aðra hugmynd sem kom frá Galver. Hún snérist um að láta fólk af mismunandi þjóðernum, með mismunandi hendur, syngja bítlalagið „All You Need Is Love“ með nýju viðlagi sem útleggst „All You Need Is Hand“. Hægt er að horfa á myndband af gjörningnum hér að neðan.
http://www.youtube.com/watch?v=XeHwQ-Jln60