Jökull Heiðdal Úlfsson, fyrrum framkvæmdastjóri Stefnis hf., hefur verið skipaður af fjármálaráðherra sem skrifstofustjóri kjara- og mannauðssýslu ríkisins til næstu fimm ára. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birtist á vef stjórnarráðsins í morgun.
Kjara- og mannauðssýsla ríkisins er sérstök ráðuneytisstofnun sem sinnir verkefnum á sviði mannauðsmála ríkisins. Þá hefur stofnunin einnig leitt samninganefnd ríkisins við gerð kjarasamninga, auk þess sem hún er í samstarfi við samtök launafólks og samtök sveitarfélaga um launa- og kjaramál sem og umbætur á vinnumarkaði.
Jökull gegndi stjórnunarstörfum hjá Arion banka í yfir 20 ár, en þar var hann meðal annars forstöðumaður mannauðs og forstöðumaður á þróunar- og markaðssviði. Þá var hann einnig forstöðumaður í eignastýringu Arion banka og framkvæmdastjóri Stefnis hf. sem er stærsta sjóðsstýringarfyrirtæki landsins, í eitt ár.
Samkvæmt tilkynningu stjórnarráðsins hefur hann svo að undanförnu starfað sjálfstætt á sviði stefnumótunar, mannauðsmála og innleiðingu straumlínustjórnunar.
Alls sóttu 17 um embættið, en þrír umsækjendur drógu umsókn sína til baka. Hæfni hinna 15 umsækjendanna var svo metið af sérstakri hæfnisnefnd, sem var skipuð af fjármálaráðherra.